19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6585 í B-deild Alþingistíðinda. (4571)

271. mál, framhaldsskólar

Frsm. meiri hl. menntmn. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hl. menntmn. á þskj. 764 um frv. til laga um framhaldsskóla og brtt. meiri hl. nefndarinnar við sama frv.

Menntmn. hefur haldið nokkra fundi um þetta frv. Til viðtals við nefndina komu þeir menn sem upphaflega sömdu frv., þar á meðal hæstv. menntmrh. Birgir Ísl. Gunnarsson, sem var formaður nefndarinnar, Björn L. Halldórsson lögfræðingur, Björn Friðfinnsson lögfræðingur, Ingimundur Sigurpálsson bæjarstjóri, Jón Böðvarsson, fyrrv. skólameistari, og Jón R. Hjálmarsson fræðslustjóri. Auk þess komu til fundar við nefndina fulltrúar Félags framhaldsskóla og skólameistararnir Ingvar Ásmundsson, Guðni Guðmundsson, Örnólfur Thorlacius, Björn Teitsson, Kristín Arnalds og Jóhann Sigurjónsson. Stefán Ólafur Jónsson, deildarstjóri í menntmrn., sat nokkra fundi nefndarinnar.

Í viðræðum við þessa aðila, sem ég hef nú lesið upp, kom margt athyglisvert og fróðlegt fram. Ég sé sérstaka ástæðu til að nefna ánægjulegan fund sem nefndin hafði með Félagi framhaldsskóla, en þar mættu formenn framhaldsskólafélaga víða að og komu með ýmsar tillögur sem þeir höfðu á blaði varðandi frv., fyrirspurnir og óskuðu eftir skýringum. Fundurinn var sérstaklega ánægjulegur vegna þess hversu framhaldsskólanemar höfðu mikið og rækilega sett sig inn í frv., höfðu lifandi áhuga á málefnum skólans og mikið til málanna að leggja. Auk þessa hafa nefndinni borist ýmis gögn, bréf og umsagnir.

Í afstöðu sinni til málsins klofnaði nefndin. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með brtt. sem lagðar eru fram á þskj. 765.

Fjarverandi afgreiðslu málsins var Ólafur Þ. Þórðarson.

Undir nál. meiri hl. skrifa þingmennirnir Guðmundur G. Þórarinsson, Sverrir Hermannsson, Ragnhildur Helgadóttir og Árni Gunnarsson.

Á þskj. 765 hafa verið lagðar fram í deildinni brtt. frá meiri hl. menntmn.

1. brtt. er við 2. gr. frv. um hlutverk framhaldsskóla og þar segir:

„Greinin orðist svo: Hlutverk framhaldsskóla er eftirfarandi:

- að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðissamfélagi með því að skapa skilyrði til náms og þroska við allra hæfi,

- að búa nemendur undir störf í atvinnulífinu með sérnámi er veiti starfsréttindi,

- að búa nemendur undir nám í sérskólum og á háskólastigi með því að veifa þeim þekkingu og þjálfun í vinnubrögðum.“

Hér er um nokkuð ítarlegri útfærslu og aðra röðun að ræða en í upphaflega frv.

2. brtt. meiri hl. er við 3. gr. Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. orðist svo:

„Ríki eða sveitarfélög, eitt eða fleiri, geta haft frumkvæði að stofnun nýs framhaldsskóla, en skólinn verður þó eigi stofnaður nema með samþykki Alþingis. Ákvæði þetta á þó ekki við um skóla sem stofnaðir kunna að verða samkvæmt ákvæðum 38. gr."

Hér er aðeins hnykkt á því að unnt er að stofna skóla, þetta er ekki síður skýringargrein, án þess að til komi samþykki Alþingis sem slíks, enda er þá ekki um kostnaðarþátttöku ríkisins að ræða við reksturs- eða stofnkostnað. Þetta er til frekari sýringar.

Önnur brtt. er einnig frá nefndinni varðandi 3. gr., en þar segir að 4. mgr. orðist svo: „Kostnaður við byggingarframkvæmdir og stofnbúnað framhaldsskóla skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60% áætlaðs kostnaðar samkvæmt viðmiðunarreglum (normkostnaðar) þegar sveitarfélag eða sveitarfélög annast ráðningu hönnuða og verkframkvæmd. Hlutur sveitarfélags eða sveitarfélaga er þá sá hluti kostnaðar sem ríkissjóður greiðir ekki. Þegar ríkissjóður ber ábyrgð á hönnun verks og stjórnar framkvæmdum án íhlutunar sveitarfélags eða sveitarfélaga greiðir sveitarfélag eða sveitarfélög 40% miðað við normkostnað en ríkissjóður hinn hlutann. Heimilt er ráðuneytinu að semja um aðra kostnaðaraðild þegar um búnað verknámshúsnæðis er að ræða, að fengnu samþykki fjárveitinganefndar. Verði greiðslur eigi inntar af hendi samtímis reiknast verðbætur á ógreidd framlög í hlutfalli við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar.“

Enn er þessi brtt. fremur til skýringar því að í frv. segir, með leyfi forseta: „Kostnaður við byggingarframkvæmdir og stofnbúnað framhaldsskóla skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60% en sveitarsjóður sjóðir greiða 40% áætlaðs kostnaðar.

Í frv. kemur sem sagt ekki fram hvað gert er ef um frávik frá áætluðum kostnaði er að ræða og því var talið nauðsynlegt að hnykkja á því til skýringar með brtt. sem þarna er.

Jafnframt er 3. brtt. meiri hl. nefndarinnar við 3. gr. frv. þannig að 5. mgr. orðist svo: „Ákveði Alþingi að stofna skóla án aðildar sveitarfélags eða sveitarfélaga greiðist allur stofnkostnaður úr ríkissjóði. [Það liggur auðvitað í augum uppi, en þótti sjálfsagt að koma þarna inn.] Hið sama gildir um stofnkostnað við byggingu heimavistar við framhaldsskóla. "

Hér er hnykkt á því að ríkissjóður greiðir stofnkostnað við heimavist heimavistarskóla.

3. brtt. meiri hl. menntmn. er við 7. gr., en þar er lagt til að greinin orðist svo: „Menntmrh. skipar skólanefnd við hvern framhaldsskóla. Í skólanefndum skulu sitja fimm menn. Skulu fjórir tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða sveitarfélögum. Þegar um er að ræða skóla sem annast starfsmenntun skal af hálfu sveitastjórna gætt við tilnefningu að fulltrúi viðkomandi starfsgreina eigi sæti í skólanefnd. Skipunartími skólanefnda skal vera fjögur ár og miðast við kjörtímabil sveitastjórna.

Menntmrh. skipar formann skólanefndar án tilnefningar. Tilnefningaraðilar greiða þóknun og annan kostnað vegna starfa fulltrúa sinna í skólanefnd. Skólanefndir við skóla, sem ríkið rekur nú eða kunna að verða stofnaðir án þátttöku sveitarfélaga, sbr. 5. mgr. 3. gr., skulu skipaðir af menntmrh. samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar.“

Hér er nánar kveðið á um hversu skólanefnd skuli skipuð. Í frv. er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi formann skólanefndar eins og í þessum brtt. án tilnefningar, en aðrir eru skipaðir samkvæmt tilnefningu sem ákvörðuð er í reglugerð. Nefndinni þótti óljóst og eðlilegt að taka nánar af um öll tvímæli hversu nefndin skyldi skipuð.

Nokkrar umræður urðu í menntmn. um eðli skólanefndarinnar og jafnframt meðal þeirra sem á fundi menntmn. komu til að gera grein fyrir sínum skoðunum varðandi frv. Nokkuð greindi menn á. Töldu sumir að stjórn skólans yrði fjarlægari með tilkomu skólanefndar sem mundi ráða stjórn skólans, en aðrir að með þessu væri verið að auka sjálfstæði skólans á þann hátt að skólanefnd skólans færi með yfirstjórn ýmsa sem nú heyrir undir ráðuneytið.

Hygg ég að það sé tvímælalaust verið að auka sjálfstæði skólanna með þessum skólanefndum.

4. brtt. menntmn. er við 8. gr., að 1. mgr. 8. gr. orðist svo:

„Skólanefnd og skólameistari ákveða námsframboð með samþykki menntmrn."

Þar er fellt niður að skólanefnd og skólameistari marki stefnu í skólahaldi. Gert er ráð fyrir að það falli fremur í hlut skólameistara að gera það.

2. brtt. meiri hl. menntmn. við 8. gr. er um það að þar sem segir „Í upphafi hvers árs gerir skólanefnd fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og ber ábyrgð á að henni sé framfylgt“ leggur meiri hl. menntmn. til að í stað orðanna „ber ábyrgð á“ í niðurlagi komi: fylgist með. Er talið eðlilegra að skólameistari beri ábyrgð á að fjárhagsáætlun sé framfylgt, en skólanefndin fylgist með því.

5. brtt. er síðan við 9. gr., en þar er lagt til að 1. mgr. orðist svo:

„Skólameistari stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að starfsemi hans sé í samræmi við lög, reglugerðir, námsskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma og ber ábyrgð á að fylgt sé fjárhagsáætlun skólans.“

Þarna er hnykkt á því hver ber ábyrgð á að fjárhagsáætlun sé fylgt.

2. brtt. við 9. gr. er: Í stað orðanna „sem skólanefnd setur“ í lok 3. mgr. komi: sem menntmrn. setur.

Í 9. gr. segir: „Um skipan skólaráðs, verksvið þess, starfstíma og starfshætti, skal nánar kveða á um í reglum sem skólanefnd setur.“ Meiri hl. menntmn. leggur sem sagt til að þarna komi: „sem menntmrn. setur“, að skólaráðið, starfsvið þess, verksvið, starfstími og starfshættir séu ákveðnir af reglum sem menntmrn. setur.

6. brtt. er við 10. gr., en hún er svo að við 2. málsl. bætist: „og gerir tillögu til skólanefndar um nemendasjóðsgjöld“, þ.e. nemendaráð gerir tillögur til skólanefndar um nemendasjóðsgjöld jafnframt, að það sé sérstaklega tekið fram í lögunum.

7. brtt. er við 11. gr., en í 11. gr. frv. segir: „Um almenna kennarafundi og verksvið þeirra skal ákvarða í reglum sem skólanefnd setur.“ Eðlilegra þótti meiri hl. að þarna kæmi í staðinn: „Um almenna kennarafundi og verksvið þeirra skal ákvarða í reglum sem menntmrn. setur.“

8. brtt. er við 13. gr. frv. en þar er lagt til að 2. mgr. 13. gr. orðist þannig: "Menntmrn. setur skólameisturum og kennurum erindisbréf. Reglur um störf annars starfsfólks setur skólanefnd.“ Í frv. er gert ráð fyrir að menntmrn. setji skólameisturum

erindisbréf. Þarna er aukið á hlutverk ráðuneytisins og gert ráð fyrir að það setji jafnframt kennurum erindisbréf.

9. brtt. er við 15. gr. og er meira orðalagsbreyting, en lagt er til að 1. mgr. 15. gr. orðist svo: „Í öllum framhaldsskólum skal vera heilsuvernd“ í stað þess sem nú stendur: „Rækja skal heilsuvernd í framhaldsskólum.“

10. brtt. er við 17. gr., að við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem orðist svo: „Í námsskrá skal kveðið á um einingafjölda til stúdentsprófs.“ Þarna eru tekin af tvímæli um það að námsskráin skal ákvarða hversu margar einingar þarf til stúdentsprófs.

11. brtt. er við 19. gr., en þar er lagt til að aftan við 1. mgr. komi: „Þrátt fyrir skiptingu námsefnis í áfanga geta skólar, sem þess óska, haft bekkjakerfi.“ Hér er þessu bætt inn til frekari skýringar og áréttingar og til að taka af öll tvímæli um að það er ekki verið að skylda alla framhaldsskóla til að búa við áfanga- eða einingakerfi heldur geta þeir skólar sem þess óska haft áfram bekkjakerfi ef þeir leggja áherslu á það.

12. brtt. er síðan við 30. gr., að greinin orðist svo: „Á framhaldsskólastigi skal veita fötluðum nemendum, samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu fatlaður í 2. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, kennslu og þjálfun við hæfi og sérstakan stuðning í námi.“ Hér er vísað til skilgreiningar á orðinu fatlaður í nefndum lögum, en í 2. gr. þeirra segir: „Orðið „fatlaður“ í þessum lögum merkir þá sem eru andlega eða líkamlega hamlaðir.“ Þetta innskot er sem sagt til þess að taka af öll tvímæli um að hér merkir orðið fatlaður það sama og í lögunum um málefni fatlaðra.

Síðan segir áfram í brtt.: „Í því skyni skal látin í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntmrn. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.“ Þessi setning er óbreytt frá frv. og hygg ég að á hana beri að leggja mikla áherslu og ég hygg að menn hafi almennt verið sammála um það í umræðum að æskilegt væri að fatlaðir nemendur stunduðu sitt nám meðal annarra og við hlið annarra nemenda eftir því sem framast kostur er. Hins vegar er þess að gæta að sumir aðilar eru svo mikið fattaðir að þeim mun reynast það erfitt og verður þá að búa þeim aðstöðu á annan hátt. Þess vegna endar þessi brtt. við 30. gr. með setningunni: „Heimilt er að stofna sérskóla fyrir þroskahefta nemendur. Menntmrn. setur reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd kennslu og nám fatlaðra nemenda.

Ekki er óeðlilegt að gera ráð fyrir að koma þurfi sérstök lög um framhaldsskóla fyrir þroskahefta nemendur, en meðan slík lög eru ekki tiltæk þótti bæði eðlilegt og æskilegt og nauðsynlegt að taka hér inn sérstaka heimild fyrir stofnun slíkra sérskóla sem eru þó reyndar sumir við lýði.

13. brtt. meiri hl. menntmn. er við 32. gr., að 1. mgr. orðist svo: „Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað þeirra framhaldsskóla sem ríkið rekur nú eitt sér eða í samstarfi við sveitarfélög, svo og þeirra skóla sem stofnaðir verða samkvæmt ákvörðun Alþingis.“ Hér er svona frekari skýring og tekið fram nánast að rekstrarkostnaðurinn sem ríkið greiðir sé afmarkaður við þá skóla sem hafa hlotið samþykki Alþingis og stofnaðir eru samkvæmt ákvörðun Alþingis.

14. brtt. er við 38. gr. og þar er enn hnykkt á þessum skilningi. Greinin hljóðar svo, með leyfi forseta: „Alþingi ákveður framlag ríkissjóðs til skóla á framhaldsskólastigi sem stofnaður er af einkaaðilum eða samtökum með hliðstæðum hætti og nú er um Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólann, enda uppfylli þessir skólar sams konar skilyrði um námsframboð og kennsluskipan“ og í brtt. er lagt til að þarna bætist við: „og hafa hlotið starfsleyfi menntmrn." og í öðru lagi að aftan við þessa grein bætist ný mgr.: „Ekki eiga einkaskólar kröfu til styrks af almannafé.“ Enn eru þar tekin af tvímæli þannig að ekki verði lög þessi skilin svo að ríkinu beri að greiða rekstrarkostnað einkaskóla í öllum tilvikum, heldur þurfa þeir að hafa hlotið starfsleyfi menntmrn. og til þeirra þarf að hafa verið stofnað með ákvörðun á Alþingi.

15. brtt. er við 41. gr. og þar er eingöngu um að ræða lagfæringu á prentvillu. Í 10. tölul. komi: „lög nr. 26/1975, um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands, í stað 16.

16. brtt. er síðan við 42. gr. um að lög þessi öðlist þegar gildi og skuli koma að fullu til framkvæmda í upphafi skólaárs 1988–1989, en þar leggur meiri hl. nefndarinnar til að aftan við greinina bætist: „Þó skulu III. og VIII. kafli laganna ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1989," en þar er fjallað um stofn- og rekstrarkostnað, að lögin taki ekki að fullu gildi gagnvart því fyrr en á áramótum með nýjum fjárlögum.

17. og síðasta brtt. meiri hl. menntmn. er síðan sú að á eftir 42. gr. frv. komi svofellt ákvæði til bráðabirgða:

„Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. þessara laga, um kostnaðarskiptingu við byggingarframkvæmdir, skulu gerðir samningar um byggingarframkvæmdir halda gildi sínu.“

Hér er að sjálfsögðu átt við það að þrátt fyrir þessi ákvæði sem nú eru sett með lögum skuli samningar sem þegar hafa verið gerðir um aðra kostnaðarskiptingu halda sínu gildi.

Forseti. Ég hef lokið máli mínu.