20.04.1988
Neðri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6674 í B-deild Alþingistíðinda. (4626)

271. mál, framhaldsskólar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég get ekki að því gert að mér finnst mjög sérkennilegt að þegar ég flyt brtt., sem felur í sér að gerð er sú veigamikla breyting á frv. að í stað þess að ríkið greiði 60% kostnaðar greiði það 80% og hlutföllin hjá sveitarfélögunum breytist að sama skapi, komi sú till. alls ekki til atkvæða vegna þess að áður er búið að greiða atkvæði að fyrirmælum forseta um 4. mgr. brtt. frá meiri hl. menntmn. Ef menn bera þetta tvennt saman sjá menn auðvitað að till. um prósentuskiptinguna gengur miklu lengra og er miklu meira afgerandi og hlýtur að þurfa að fást afgreidd sér á parti, jafnvel þó menn séu síðan reiðubúnir að samþykkja brtt. menntmn. sem er um allt annað atriði eins og menn sjá. Brtt. hv. menntmn. er alls ekkert um þetta atriði, 60% og 40%. Það er bara smáviðbót við setninguna og það hlýtur að þurfa sérstaka atkvæðagreiðslu um mína till. um breytt kostnaðarhlutföll ríkis og sveitarfélaga.