05.11.1987
Neðri deild: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

42. mál, áfengislög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs þegar frummælandi, hv. þm. sem var varaþm. þá, Jón Magnússon, mælti fyrir þessu máli, en mér blöskraði þegar hann flutti blásaklaus enn á ný rökin sem hljóðuðu svo: „Tilgangur þessa frv. er í fimm liðum og er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

1. að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja,

2. að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar,

3. að afla ríkissjóði tekna,

4. að efla þann hluta íslensks iðnaðar sem annast framleiðslu á öli og gosdrykkjum,

5. að samræma áfengislöggjöfina.“

Mig langar til að byrja á því að víkja að þessum röksemdum hverri fyrir sig.

Fyrsta röksemdin stenst að mínu viti alls ekki. Hvernig má það vera að það dragi úr hinni miklu neyslu áfengis að auka áfengi sem á boðstólum er? Hvernig má það vera — og þá mun ég fjalla um röksemd nr. tvö af hálfu flm. um leið — að það breyti drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar og þar með að það ráði að einhverju leyti bót á þeim mikla áfengisvanda, sem því miður er víða við að etja í okkar þjóðfélagi, að auka á orsökina? Áfengi er þá áreiðanlega eina fyrirbrigðið í þjóðfélaginu sem svo stendur á um ef það veldur vanda sé minnkun á vandanum fólgin í því að auka á orsökina, þ.e. áfengisneysluna í þessu tilviki. Þetta bið ég hv. þm. að hugleiða vandlega því að þetta eru röksemdir sem standast alls ekki og þetta eru röksemdir sem óneitanlega bera vott um afskaplega dapurlega krókaleið að þeirri niðurstöðu sem hv. flm, vilja fá.

Hv. flm. gera sér auðvitað grein fyrir því að meiri hluti þjóðarinnar vill draga úr áfengisvandanum. En ég tel að það séu fullkomin falsrök að bera það á borð fyrir almenning að leiðin til að draga úr áfengisvandanum sé að auka heildarneyslu áfengis. Hv. 17. þm. Reykv., sem hér lauk máli sínu, gat þess að vísu að við vitum það auðvitað ekki. Það er rétt að við vitum ekki um heildarneysluna í lítrum talið, en ótal rannsóknir víða um heim, framkvæmdar af færustu vísindamönnum á þessum sviðum, leiða til þeirrar niðurstöðu að það er algerlega ljóst að ein gerð áfengis til viðbótar eykur heildarneysluna. Það er líka ljóst að aukin heildarneysla leiðir til aukins áfengisvanda.

Ef það er algerlega ljóst að heildarneyslan eykst og þar með að það skiptir ekki máli hvort bjórneysla dregur úr neyslu sterkra drykkja eða ekki vil ég líka taka þá röksemd sérstaklega til athugunar í þrengstu merkingu þess sem hér er vikið að, neyslu sterku drykkjanna sjálfra. Ég hef enga trú á því að bjór á markaðnum mundi draga úr neyslu sterkra drykkja og kannski sérstaklega hjá ungu fólki, eins og hv. frsm. vék að og er væntanlega skoðun flm. Ég er þeirrar skoðunar að það liggi alveg ljóst fyrir að sá sem drekkur áfengi til að komast sem fyrst í áfengisvímu drekkur auðvitað sterkt áfengi hvort sem bjór er á markaðnum eða ekki. Það kemur ekkert því máli við. Ef hann kærði sig ekki um að komast í slíka vímu mundi viðkomandi snúa sér að léttu víni sem er á markaðnum. Þess vegna held ég að aukið framboð á bjór mundi tvímælalaust fjölga áfengisnotendum og það sem meira er: Það mundi gera áfengisneysluna miklu algengari. Það yrði um meiri hversdagsneyslu að ræða. Léttu vínin eru e.t.v. ekki eins mikill hversdagsdrykkur og hætta er á að bjórinn yrði. Léttu vínin eru borin fram oft við hátíðlegar kringumstæður í fallegum glösum, en menn mundu flýta sér að kneyfa bjór úr krúsum, sem ekki væru eins viðkvæmar og léttvínsglösin, og þó ekki væri annað en þetta yrði strax kominn annar svipur á þá neyslu.

Þetta er auðvitað ekki aðalatriði í sambandi við það að bæta drykkjusiði þjóðarinnar. Ég er alveg sammála flm. þar sem þeir tala um að verðstýring geti orðið til að bæta drykkjusiði þjóðarinnar. Ég er mjög hrædd við þá pólitík, sem stundum hefur gert vart við sig og menn hafa stundum talið að mundi auka tekjur ríkissjóðs, að lækka verðið á brennivíninu en hækka verðið á léttum vínum. Þessa stefnu tel ég ómenningarlega og hættulega heilbrigði manna. Þeir peningar sem e.t.v. koma í ríkiskassann fyrir svona aðgerðir kunna að vera fljótteknir, en afleiðingarnar eru langtum kostnaðarsamari og það kostar meira að bæta þær afleiðingar en nemur upphæðum sem inn koma fyrir áfengið.

Hv. flm. andmæla því ekki að drykkja þjóðarinnar kynni eitthvað að aukast og það sé auðvitað mál hvers einstaklings fyrir sig að ákveða hvað hann lætur ofan í sig. Víst er það mál hvers einstaklings fyrir sig að ákveða hvað hann lætur ofan í sig. Það er rétt. Þess vegna hef ég stundum verið þeirrar skoðunar, og reyndar alltaf þegar þetta mál hefur verið borið undir atkvæði Alþingis, að þjóðaratkvæðagreiðsla gæti verið rökrétt. Ég er hins vegar komin á aðra skoðun nú. Ég tel að Alþingi eigi ekki að skjóta sér undan því að taka afstöðu til þessa máls. Ég geri mér ljóst að það hefur verið vænlegt til vinsælda upp á síðkastið að tjá sig meðmæltan hinu svonefnda bjórmáli sem í margra augum er stórmál. Ég tel að þm. komist ekki hjá því að horfast í augu við hrein og klár rök þessa máls og hliðra sér ekki hjá því að horfast í augu við staðreyndir. Í þessu máli gildir ekki sú regla að þar sé allt í einu ekki að marka niðurstöður ótal vísindalegra kannana og þeirra sem við sérstaklega kjósum á alþjóðavettvangi til að reyna að móta samræmda stefnu í mörgum löndum í þessum málum. Þess vegna held ég að þarna eigum við að stöðva aukningu áfengisneyslunnar og það sé ekki til góðs að bæta að þessu leyti til við tegundirnar í áfengisvöruflokknum. Hins vegar þarf að draga úr neyslunni.

Menn geta sagt: Ja, er það ekki óeðlilegt og er það ekki rökleysa að lög leyfi sumum þegnum þjóðfélagsins og öðrum ekki að kaupa bjór? Þetta segir hv. 17. þm. Reykv. Það má vel vera að það sé rökleysa, en lítum svolítið nánar á þetta. Er þá ekki sams konar rökleysu að finna afskaplega víða í löggjöf okkar? Er þá ekki þessi rökleysa víðar í áfengislöggjöfinni? Það er svo að lög leyfa bara sumum þegnum þjóðfélagsins að kaupa áfengi yfir höfuð. Lög leyfa bara sumum veitingahúsum að selja áfengi og öðrum ekki. Við komumst ekki hjá því að það er skipting manna í hópa í þjóðfélaginu að þessu leyti til og ef við teljum það skynsamlegt hlýtur það að vera vegna þess að við viljum ekki auka áfengisflæðið í landinu. Sú röksemd á við í þessu máli líka.

Hv. 17. þm. Reykv. vitnaði til þess að þeir flm. hefðu undir höndum upplýsingar frá Noregi um að þar hefði bjórneysla, að því er þeir telja, leitt til þess að neysla sterkra drykkja hefði farið minnkandi. Þeir sem hafa öðru hvoru komið til Noregs á því tímabili sem hér um ræðir kannast við að þar eru aðrar ástæður sem hafa orðið til þess að dregið hefur úr neyslu sterkra drykkja. Þar er einfaldlega með aðferð sem mörgum þykir óskemmtileg, vissum aðgangstakmörkunum, dregið úr neyslunni. E.t.v. hafa einhverjir hér inni upplifað að fá sér góðan hádegisverð á hóteli í Oslóborg og ætlað að panta koníak með kaffinu á eftir á sunnudegi. Það gengur ekki þar í landi. Þar eru ekki seldir sterkir drykkir á veitingahúsum á tilteknu tímabili dagsins eða t.d. alls ekki á sunnudögum fyrr en eftir tiltekinn tíma, ekki fyrr en eftir kl. 6 má ég segja. Aðgangstakmarkanir af þessu tagi eru þar mjög tíðkaðar. Þetta er eitt af því sem er alveg ljóst að er til þess að draga úr neyslu sterkra drykkja og hefur enda gert það. Þess vegna er það að kanna þarf fleiri hliðar þessa máls en rætt hefur verið um af hálfu flm.

Menn tala um að það kunni að vera eitthvað bogið við áfengisstefnuna hér og þeir sem sjálfir kaupa sér bjór geti varla verið þess umkomnir að ákveða fyrir aðra að þeir skuli ekki hafa aðgang að bjór. Við viljum rökrétta áfengislöggjöf, segja flm.

Víst á löggjöfin að vera rökrétt og ekki bara áfengislöggjöfin. Við verðum að athuga að áfengislöggjöfin felur í sér ýmsar takmarkanir og það að leyfa bruggun og sölu áfengs bjórs í landinu gerir ekki áfengislöggjöfina rökrétta. Það gerir enn þá síður heildarlöggjöfina sem snertir áfengisdrykkju og sérstaklega afleiðingar hennar rökréttar. Þess vegna leyfi ég mér að segja að þeir sem eru þess umkomnir að rýmka aðgang almennings að áfengi á þennan veg verða líka að sjá til þess að það sé séð við afleiðingunum.

Ríkið íslenska hefur því miður ekki verið í stakk búið til að ráða við afleiðingar áfengisdrykkju svo vel sé, ekki svo nægilega vel sé, í mörg herrans ár. Þetta veit hæstv. dómsmrh. sem situr hér fyrir framan mig. Þá á ég ekki aðeins við heilsufarsafleiðingarnar. Það er geysilegur vandi sem við er að etja fyrir þá sem sjálfir eiga við áfengisvanda að stríða. Margir fá lækningu og aðrir ekki. En það eru heilu fjölskyldurnar og það er tjón á lífi og eignum. Og halda menn að það dragi úr ölvunarakstrinum? Á þessu landi okkar er það því miður svo að umferðarslys og ölvunarakstur veldur alvarlegra tjóni og tíðara en í fjölmörgum öðrum löndum, af hverju sem það stafar. Ég held að Alþingi væri nær að bregðast við þeirri vá og þeirri sorg og koma í veg fyrir þá sorg sem slíkt veldur og það tjón en að auka á vandann með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég leyfi mér að draga þessi atriði sérstaklega fram þegar menn setja fram svo einfalda röksemd að þetta afli ríkissjóði tekna. Það getur vel verið að það sé hægt að sýna tekjudálkinn með svolítið stærri tölu eitthvert ár af þessum sökum, en ég er alveg viss um að það verður margföld hækkun sem þarf í gjaldahliðinni af þessum sömu sökum, svo að vikið sé að röksemd flm. nr. 3.

Röksemd nr. 4 er að efla þann hluta íslensks iðnaðar sem annast framleiðslu á öli og gosdrykkjum. Ég hélt að þetta frv. fjallaði um áfengt öl en ekki gosdrykki. Mér finnst þarna vera blandað saman tvennu og það ber því miður að sama brunni og með hinar fyrri röksemdir að í þessu birtist nokkur tvískinnungur. Þarna er verið að setja svolítinn glassúr á kökuna í því skyni að gera hana lystugri. Þarna er verið að tína fram einhverjar röksemdir sem menn telja að almenningi finnist jákvæðar í þeim tilgangi að þm. verði varir við þrýsting til að samþykkja frv. En ég hvet hv. alþm. til að standast allan slíkan þrýsting og fara eftir þeim beinhörðu upplýsingum sem fyrir liggja.

Ég vék áðan að röksemd nr. 5, sem var að samræma áfengislöggjöfina, og ræddi þá einnig um aðra löggjöf, að það væri ekki samræmi í því að flytja frv. sem eykur áfengisvandann og vera svo ekki í stakk búinn til að ráða við afleiðingarnar.

Ég vek athygli hv. þm. á því að í febrúar sl. var útbýtt í þinginu miklu nefndaráliti frá áfengismálanefnd ríkisstjórnarinnar. Það var gríðarmikil nefnd sem hafði starfað lengi, með nokkrum hléum þó, að mjög vönduðu verki til að leggja grunn að áfengisstefnu ríkisstjórnarinnar. Í þessu riti koma fram mjög gagnlegar upplýsingar og vel framkvæmanlegar tillögur margar og þar er vikið að þeim vanda m.a. sem hv. 4. þm. Austurl. vék að áðan, tengslunum milli áfengis og annarra vímuefna. Ég undirstrika í því sambandi að ég held að það sé afar útbreiddur og hættulegur misskilningur þegar fjallað er um þessi mál á þann veg að áfengi sé tiltölulega meinlaust eiturefni. Ég held að það þurfi ekki margra vitna við til þess að sjá að það er mjög hættulegt eiturefni og það ber að umgangast það sem slíkt. En auðvitað fer það allt saman eftir magninu og þess vegna er þetta frv., sem eykur magnið, afar neikvætt.

Ef menn aðhyllast það sem röksemd, þegar menn vita að bjór er útbreitt áfengi í landinu án þess þó að vera almennt lögleyft; ef menn aðhyllast þá röksemd að hver og einn eigi að ákveða það sjálfur hvaða eitur hann lætur ofan í sig, á þeim grundvelli væntanlega að ein hlið lýðræðisins sé sú að hver einstaklingur hafi rétt til þess jafnvel, ef svo ber undir, að fara í hundana ef honum sýnist svo, þá er það ekki alveg svo einfalt, því það eru aðrir sem þurfa að taka afleiðingunum. Það eru-aðrir sem bíða líka tjón. Það sem við erum hér að fjalla um eru aðrir. Alþingi tekur í allri löggjöfinni ákvarðanir fyrir aðra, eftir sinni sannfæringu, en fyrir aðra. Þess vegna er ekki hægt að skjóta sér á bak við þessa röksemd. En ef menn aðhyllast þessa röksemd er þá ekki orðið stutt í þá röksemd að segja: Hvað væri við það að athuga að leyfa hass ef við leyfum ekki kókaín, ef við höldum að þá minnki hætta á kókaínneyslu ef menn hafa aðgang að hassi? Menn eru að segja blákalt og grafalvarlegir hvað eftir annað: Það minnkar trúlega neyslu á sterkum vínum ef menn hafa aðgang að bjór. Ég leyfi mér að hafna þessari röksemd algjörlega sem rangri og hættulegri.

Þessi afstaða, bæði mín og áreiðanlega ýmissa annarra sem eru svipaðs sinnis, kemur ekkert því við hvort okkur sjálfum þykir bjór góður eða ekki. Það sem við erum að hugsa um er að við viljum sporna gegn auknum vanda. Það á við í þessu máli eins og fjölmörgum öðrum og ég held að Alþingi væri nær að snúa sér að því að láta koma betur til framkvæmda þá hugsun sem er í tilteknu ákvæði áfengislaganna og fjallar um Gæsluvistarsjóð, að hann verði þess megnugur að standa undir þeim afleiðingum sem við þurfum að berjast gegn á þessu sviði.

Enn á ný vil ég beina máli mínu sérstaklega til hæstv. dómsmrh. Ég vék lítillega að því áðan að hann hefði vafalaust kynnst því vel við hvern vanda er að etja. Það vantar sárlega staði þar sem hægt er að koma þeim mönnum sem orðið hafa brotlegir við lög landsins, í afar mörgum tilvikum vegna neyslu áfengis, til þess að geta tekið þátt í hinu eðlilega lífi löghlýðinna borgara. Á þessu sviði hefur félagsskapur eins og t.d. Vernd og fleiri aðilar unnið mikilsvert sjálfboðaliðastarf. Slíkar stofnanir er lögum samkvæmt skylt að reisa og reka, en íslenska ríkið hefur ekki haft ráð á því. Ég held að slíkan vanda eigi Alþingi að sameinast um að leysa. Alþingi ætti að afgreiða sem fyrst bjórmálið, svo við lendum nú ekki í flækju með það rétt einu sinni á seinasta degi þings, eins og oft hefur orðið og Alþingi til athlægis. Við skulum afgreiða það sem fyrst og fella það.