27.04.1988
Neðri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6882 í B-deild Alþingistíðinda. (4823)

201. mál, almannatryggingar

Frsm. heilbr.- og trn. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. þessarar deildar er sammála um að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar. Við teljum að hér sé bent á mjög mikilsvert atriði sem vissulega þarf endurskoðunar við. Ég hygg að flestir séu sammála um það að vasapeningar, sem þeir hafa sem einungis njóta örorkulífeyris og tekjutryggingar, séu of lágir og þá þurfi að hækka. Sama gildir um flesta sem einungis njóta ellilífeyris og tekjutryggingar. Þeir hafa þó sumir hverjir lífeyristekjur. En svo stendur á um marga örorkuþegana að þeir eru svo ungir að árum og hafa verið haldnir sinni örorku svo lengi að þeir hafa aldrei átt kost á því að greiða í lífeyrissjóð og hafa þá ekki þann möguleika. Þarna hefur jafnan verið látið vera nokkurt samræmi milli öryrkja og ellilífeyrisþega. Þess vegna teljum við að þetta þurfi að skoðast í samhengi. Það skal tekið fram að hér er um að ræða þá sem dveljast á stofnunum.

Þetta atriði teljum við að nefnd sú sem hefur til meðferðar heildarendurskoðun almannatrygginga verði að skoða mjög gaumgæfilega með úrbætur og hækkun á upphæðum fyrir augum. Í trausti þess leggjum við til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar og vonumst fastlega til að sjá frv. sem hefur að geyma ákvæði til bóta á næsta þingi.