28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6932 í B-deild Alþingistíðinda. (4890)

489. mál, Hæstiréttur

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessi svör. Það er alveg rétt að málahalinn hefur styst mikið á þeim málum sem áfrýjað hefur verið og það er líka rétt að færri málum hefur verið áfrýjað en áður, en aðalskýringin á því að það tekur núna skemmri tíma að bíða eftir dómum úr Hæstarétti er sú að þarna sitja átta dómarar í staðinn fyrir fimm sem eðlilegt væri.

Ég kom inn á lögréttufrv. eða millistigsdómstig og finnst sjálfum að það hefði verið mikil réttarbót ef það frv. hefði verið samþykkt þegar það var lagt fram, en það mun hafa verið lagt fram á þingi einum fimm eða sex sinnum en ekki hlotið afgreiðslu. Ég tel mikla nauðsyn á því að þriðja dómsýslustigið verði sett á fót þar sem Hæstiréttur á aðeins að fjalla um lagaatriði en ekki sönnunaratriði að mér finnst.

Ég fagna því að hugur hæstv. dómsmrh. er til þess að Hæstiréttur fái nýtt og hentugra húsnæði, en hins vegar harma ég að það sé ekki búið að taka ákvörðun um það enn þá. Þetta mál hefur verið í undirbúningi í a.m.k. tíu ár og ef ég skil hæstv. dómsmrh. rétt má búast við enn þá lengri bið.

Landsbókasafnið eða hús þess við Hverfisgötuna er mjög hentugt eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh. Húsameistari ríkisins hefur tekið það hús út og talið að það henti mjög vel fyrir Hæstarétt. Þess vegna á ég erfitt með að skilja hvernig á því stendur að það verði ekki ráðist í þetta strax og Hæstiréttur fái þetta ákveðna húsnæði.