06.05.1988
Efri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7648 í B-deild Alþingistíðinda. (5658)

271. mál, framhaldsskólar

Frsm. minni hl. menntmn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að lokum að hnykkja á þeim atriðum sem tengjast efasemdum mínum um ágæti skólanefndanna og kannski líka vegna þess að fram kom í máli hv. 6. þm. Reykn. áðan að hún talaði um að skólanefndin mundi ekki ástunda pólitíska togstreitu í störfum sínum. Ég er hjartanlega sammála henni í því. Ég efast ekki um að alveg eins og við reynum að vinna málefnalega hér í nefndum muni skólanefndir, ef þær eru til þess kjörnar, að sjálfsögðu vinna málefnalega. Það var ekki mín hugsun, ég vildi ef það hefði verið misskilið leiðrétta það, að skólanefndir mundu vinna í togstreitu sín á milli vegna einhverra flokkshagsmuna.

Ég vildi aðeins hnykkja á þessu þar sem mikið hefur verið talað um stjórnskipan skólanna og það hefur verið rætt um það, hæstv. menntmrh. minntist á það, að þeir skólameistarar sem til þekktu hrósuðu slíkum nefndum. Ég vildi aðeins benda á að vegna þess að lög hafa ekki verið til um framhaldsskólann hafa þær raunverulega ekki haft það verksvið sem við erum að ræða um hér. Þær hafa stutt skólameistara í uppbyggingu skólanna því að skólanefndir við framhaldsskólana eru aðallega við nýjustu skólana, þ.e. við fjölbrautaskólana úti á landsbyggðinni, og þær hafa stutt skólameistara gagnvart fjárveitingavaldinu. Skólameistarar hafa sagt það sjálfir, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, að þær hafi vissulega verið þeim bakhjarl gagnvart fjárveitingavaldinu, en þær hafa svo sem ekki verið að stjórna starfi skólanna né heldur því námi sem þar er boðið upp á, enda ekki haft til þess neinn lagalegan rétt. Skólameistarar hafa verið nokkuð einráðir um skólastarfið í samráði við kennarana. Einn þeirra komst svo að orði í umræðum um þessi mál að ef skólanefndin vildi fara að stjórna væri rétt að leyfa henni það því að hún mundi fljótlega gefast upp.

Og það er annað sem ég vildi benda á líka. Nú háttar svo til í mörgum sveitarfélögum að þau eiga aðild að skóla sem er í þéttbýli á svæðinu. Ég sé fyrir mér að ef skólanefndir eiga að hafa þetta víðtæka starfssvið muni þær þurfa að hittast mjög oft og reglulega. Nú eru mörg sveitarfélög, sem eiga aðild að skólunum og eru með sérstaka samninga og leggja fram fé til þeirra, langt í burtu og eiga þess jafnan ekki kost að setja sig svo mjög inn í starfið sem þetta hlýtur að krefjast.

Þá er það líka annað sem hefur vakið hjá mér spurningar og það er í sambandi við þegar talað er um iðnnám eða nám í sjávarútvegsfræðum. Þá er talið sjálfsagt að þar sitji faglegar nefndir á bak við. Það er þá spurning: Hví ekki líka á bak við nám sem snýr að almennri menntun?

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, herra forseti, að lokum, en vil þá ljúka máli mínu hér og nú.