30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

153. mál, lagning vegar með suðurströnd Reykjanesskaga

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Ég kem hér til að lýsa stuðningi við till. Ég vek athygli á því að þetta er ekki tillaga um að byggja veg heldur að gera athugun eða kostnaðaráætlun á byggingu vegar og framkvæmdaáætlun og vænti ég þess að fljótt og vel verði að því staðið.

Vegakerfi Reyknesinga hefur yfirleitt verið talið gott og farið batnandi reyndar, en það er margt sem eftir er að gera og vissulega í mörg horn að líta. Það áhyggjuefni sem kannski stendur þm. Reykjaneskjördæmis næst þessa dagana er umferðin nálægt höfuðborgarsvæðinu. Ég get sagt það sem dæmi að ég er oft jafnlengi frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og frá Keflavík til Hafnarfjarðar þó að það sé mun styttri vegalengd um að ræða, þ.e. frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Það sýnir að hin þunga umferð sem á veginum er frá Hafnarfirði til Reykjavíkur er til mikils baga vegna þess hversu vegakerfið er vanbúið.

Það hefur verið rætt hér líka um fleiri vegi en þennan. Þessi vegur kemur til með að gera margt gott og því betur sem lengra líður og hefur það verið rakið hversu samskipti Suðurlands og Reyknesinga hafa vaxið að undanförnu og fara mjög vaxandi einkum nú þegar fyrirhugað er að tengja fiskmarkaði Suðurnesja og Suðurlands saman. Nokkuð hefur verið um fiskflutninga frá Þorlákshöfn til Suðurnesjasvæðisins og mundi vegur sem þessi stytta þá vegalengd allverulega.

Árið 1980 gerði bæjarstjórn Keflavíkur samþykkt um nauðsyn þess að gera nýjan veg frá Fitjum til Grindavíkur, þ.e. meðfram hitaveituleiðslunni. Sá vegur er til svo að segja. Það vantar að setja á hann bundið slitlag. Það mundi stytta leiðina þar á milli allverulega og gera auðveldara um samgöngur milli byggðarlagana þar af leiðandi.

Ég vænti þess að af þessari kostnaðar- og framkvæmdaáætlun geti orðið sem allra fyrst og styð heils hugar þá tillögu sem hér liggur fyrir.