132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:20]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Framganga ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans í þessu máli er þeim ekki til mikils sóma. Mannréttindaskrifstofan, örsmá stofnun sem hefur sinnt alþjóðasamstarfi á sviði mannréttindamála og haft hefðbundnu eftirlitshlutverki að gegna með frammistöðu stjórnvalda hér á þessu sviði, hafði um árabil sérmerktar fastar fjárveitingar upp á 8 millj. kr. Svo virðist sem stofnunin hafi fallið í ónáð hjá tilteknum ráðherrum sem hafa síðan þjónað lund sinni og fengið stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar í lið með sér til að kippa fótum undan rekstri hennar. Ekki var staðið við það sem sagt var í fyrra við afgreiðslu fjárlaga þá að Mannréttindaskrifstofan fengi óbreyttar fjárveitingar, eingöngu væri um kerfisbreytingu að ræða. Það reyndust innistæðulaus ómagaorð. Samt hafa menn ekki meiri metnað fyrir sjálfs sín hönd en svo að endurtaka á leikinn. Það er alveg með ólíkindum að menn skuli leggja lykkju á leið sína, fara í langferð (Forseti hringir.) eins og hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hefur gert til að ná sér niðri á Mannréttindaskrifstofunni.