132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ganga til atkvæða um tillögu frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem vill styrkja og bæta fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Það er staðreynd að dvalarheimili aldraðra og hjúkrunarheimili fyrir aldrað fólk búa við fjársvelti, mjög mikið fjársvelti en afleiðingar þessa hafa verið að birtast okkur í fjölmiðlum á undanförnum dögum. Um það þarf ekki að hafa mörg orð. Það þekkja allir.

Hér er ekki verið að vísa í biðraðir sem hafa myndast við þessar stofnanir heldur þann aðbúnað sem fólkinu er búinn inni á stofnunum, inni á þessum fjársveltu stofnunum. Alþingi hefur borist ákall frá forsvarsmönnum þessara stofnana þar sem segir á þá leið að það sé ekki að ástæðulausu sem forsvarsmenn öldrunarheimila hafa áhyggjur af stöðu og framtíð heimilanna og þeim öldruðum sjúkum sem þar dvelja. Hæstv. forseti. Nú reynir á hvernig alþingismenn vilja bregðast við þessu ákalli.