132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:46]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sínum tíma þegar við vorum að ræða um sóknardagamál lá afstaða mín algjörlega fyrir í þeim efnum. Ég vildi gjarnan viðhalda sóknardagakerfinu en ekki í óbreyttri mynd. Mér var alveg ljóst að þannig gat það ekki staðist til neinnar lengdar. Ég hef margoft talað um það, og m.a. á þessum frægu fundum sem hv. þingmaður hefur stundum vitnað til. Hann getur flett því upp að ég sagði alltaf skýrt og skorinort: Jú, ég vil gjarnan hafa sóknardagakerfi. Ég er þeirrar skoðunar enn þann dag í dag að það sé alveg hægt að stjórna veiðum með sóknarstýringu. En þá verður líka að koma fleira til, það verður að koma til flotastýring. Þá verða menn að vera menn til þess og hafa kjark til þess að beita jafnframt flotastýringu.

Það er alveg ljóst mál, (Gripið fram í.) virðulegi forseti, að ef menn hefðu ætlað að hafa þetta dagakerfi áfram hefði þurft að setja inn í það sóknartakmarkandi þætti. Það var það sem ég sagði á fundi eftir fund því ég var einfaldlega þeirrar skoðunar að það að hafa 21, 23 eða 25 daga í óbreyttu kerfi hefði að lokum sprengt það upp eins og varð reyndar raunin. Það sem hefði þá þurft að koma til var það að við hefðum þurft að vera með sóknartakmarkandi þætti, bæði með því að stýra þessu með dögum, eins og menn gera þar sem sóknarstýring á sér stað, og líka með því að draga úr áhrifum sóknarinnar með einhverjum öðrum hætti. Við skulum ekki gleyma því að þegar við ræddum þessi mál var m.a. talað um að setja inn í löggjöfina ákvæði sem fólu það í sér að menn mættu ekki róa nema með svo og svo marga bala. Við vorum meira að segja farnir að tala um hversu margir krókar mættu vera á hverjum einasta bala. Og bann við róðrum á sunnudögum, bann við róðrum á þessum dögum o.s.frv. Við reyndum að upphugsa alls konar aðferðir í þessum efnum. Við skulum því ekki bera saman eitthvert kerfi sem allir vita að hefði ekki staðist raunveruleikann í dag.

Niðurstaðan varð hins vegar önnur eins og menn vita. Þá var þrautaráðið það að við reyndum að setja á þessa báta, sem áður höfðu starfað í sóknardagakerfi, eins miklar aflaheimildir og frekast var hægt að tosa út. Það er enginn vafi á (Forseti hringir.) því að aflaheimildir þessara báta voru mjög ríkulegar og mörgum fannst of ríkulegar, m.a. í smábátakerfinu.