132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:05]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (frh.):

Frú forseti. Þá held ég áfram með ræðu mína sem nú hefur tekið yfir tvær árstíðir. Hún hófst síðasta vetrardag, var frestað skömmu eftir miðnætti þegar sumardagurinn fyrsti var runninn upp og heldur nú áfram og er ánægjulegt að standa hér í sumarsólinni og ræða þetta alvarlega mál.

Ég hef sérstaklega gert að umtalsefni stöðu Framsóknarflokksins í málinu og kallaði eftir því að talsmenn þeirra í umræðunni síðar í dag eða síðar við 3. umr. geri okkur grein fyrir því hvað varð til þess að Framsóknarflokkurinn lét undan kröfu Sjálfstæðisflokksins um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi en ekki sjálfseignarstofnun. Eða að fara aðrar leiðir til að tryggja félagslegt eignarhald og félagslegt hlutverk RÚV. Hef ég lagt fram ýmislegt í þann orðabelg um að bjarga bæði Framsóknarflokknum og Ríkisútvarpinu úr klóm Sjálfstæðisflokksins. Verður gaman og fróðlegt að heyra hvernig framsóknarmenn taka þessari umræðu og útskýra það fyrir þingi og þjóð af hverju þeir slógu svona undan einkavæðingarofstækinu í Sjálfstæðisflokknum, af því að engum blandast hugur um hvar þeir standa enda hafa þeir verið nokkuð sprækir við umræðuna síðustu daga, hv. þingmenn Pétur Blöndal, Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson sem eru mjög einbeittir sölumenn Ríkisútvarpsins. Þeir hafa staðið sig ágætlega að því leyti, hafa borið uppi þau frjálshyggjusjónarmið að koma Ríkisútvarpinu frá. En síðan eru margir fletir og það eru svo margar mótsagnir í afstöðu og framgöngu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og nú síðast sú ásökun sem ég rakti áðan frá forsvarsmönnum 365 og fleiri aðilum um að Ríkisútvarpið hf. eins og það lítur út hér sé áhlaup ríkisvaldsins og ríkisstjórnarinnar á einkarekna ljósvakamiðla á Íslandi, áhlaup númer tvö ef við teljum áhlaup númer eitt vera fjölmiðlafrumvörpin sem kolféllu hér hvert um annað endilangt fyrir nokkrum dögum.

Ég hef skorað á Framsóknarflokkinn að spyrna við fótum og losa sig úr þessari ömurlegu ánauð sem er að valda því að flokkurinn stendur nú frammi fyrir pólitísku afhroði, tel ég vera, ef hann réttir ekki út kútnum, stendur í lappirnar gagnvart Sjálfstæðisflokknum og losar sig úr þessari einkavæðingar- og frjálshyggjuspennitreyju sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að festa hann í og kasta inn í klefa þar sem hann megi sín ákaflega lítils í því pólitíska litrófi sem nú er uppi og virðist vera að tapa öllum sínum félagslegu einkennum. Allt fyrir þetta brokkgenga, árangurslitla stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn sem virðist vera að leiða þjóðina inn í verðbólgu, vaxtaokur og gengisflökt sem á sér vart sinn líka. Þetta eru minnisvarðarnir. Svona skilur þessi hörmulega hægri stjórn við og síðustu verkin sem á að inna af hendi áður en ríkisstjórnin fellur í kosningunum eftir ár er að koma nokkrum samfélagslegum stofnunum eins og Ríkisútvarpinu í hlutafélagaform svo að auðveldara verði að selja það þegar þannig árar.

Það verður spennandi að vita, af því að fyrir ári síðan kom það ekki til greina af hálfu Framsóknarflokksins að gefa neitt eftir, aldrei skyldi RÚV verða hlutafélag, hvort þeir eftir ár verði búnir að gefa eftir hvað varðar söluna líka og hvort Ríkisútvarpið verði þá einkavætt og þeir verði búnir að gleyma því öllu saman af hverju þeir vildu ekki einkavæða í fyrra. Hvort Pétur Blöndal, Birgir Ármannsson og Sigurður Kári, frjálshyggjuarmurinn í Sjálfstæðisflokknum nái að leiða þá inn á þessar brautir líka, af því að áhrif þessara þriggja manna í Framsóknarflokknum virðast vera nokkuð ótæpileg. Gefið er eftir í hverju málinu á fætur öðru af því að þessir menn spruttu upp einhvern veginn eftir formannsskiptin og forustuskiptin í Sjálfstæðisflokknum í fyrra. Nú fara frjálshyggjumennirnir hamförum í Sjálfstæðisflokknum. Nú skal allt hlutafélagavætt og allt einkavætt, allt sem hönd á festir. En það er eins og eitthvað hafi gefið eftir og viðnámið sé ekki lengur neitt. Hið félagslega viðnám hefur minnkað við einkavæðingarofstækið í Sjálfstæðisflokknum sem við jafnaðar- og félagshyggjumenn litum þó alltaf til á því sorglega skeiði íslenskrar stjórnmálasögu sem ríkisstjórnarsamstarf síðustu ellefu ára vissulega er. Við litum þó alltaf til þess að það væri félagslegt viðnám í ríkisstjórninni sem væri að finna í Framsóknarflokknum og það hefur oft verið til staðar. Framsóknarmenn mega eiga það sem þeir eiga og allt í lagi með það, ég er ekki að halla á það.

En nú er eins og eitthvað hafi gefið eftir og þeir hafi bara gefist upp, lagt frá sér vopnin, lagt til hliðar hin félagslegu sjónarmið og Sjálfstæðisflokkurinn vaði yfir Framsóknarflokkinn á skítugum skónum þannig að meira að segja meginmálið, pólitísku prinsippin falli, ekki bara afstaða til dægurmála. Nógu alvarleg er afstaðan til innrásarstríða eins og hins ólögmæta innrásarstríðs í Írak þegar ríkisstjórnin, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hæstv. ráðherrar á þeim tíma leiddu þá skömm yfir íslensku þjóðina að styðja við ólögmætt innrásarstríð í Írak með ömurlegum afleiðingum. Ég hélt að þar hefði verið einhver botn, þar lá við að baklandið brysti hjá Framsóknarflokknum. Ég hélt að það hefði verið einhvers konar botn í tilverunni og þeir mundu nú spyrna við fótum, sýna Sjálfstæðisflokknum í tvo heimana og láta þá bara brjóta á, bjarga þó lífi og pólitískri framtíð flokksins, falla með reisn í þessu stjórnarsamstarfi. Láta brjóta á til að bjarga stofnunum eins og Ríkisútvarpinu, grundvallarstofnunum í íslensku samfélagi frá Sjálfstæðisflokknum og bjarga þannig lífi sínu og losa sig úr klóm Sjálfstæðisflokksins. En Framsóknarflokkurinn hefur ekki gert þetta enn þá. Ég hef mjög verið að skora á hann í ræðu minni bæði í dag og í fyrri hluta hennar á miðvikudaginn að gera slíkt á næstu missirum og koma með jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki í þá pólitísku vegferð sem yrði til þess að Sjálfstæðisflokkurinn færi í langvarandi og varanlega stjórnarandstöðu hérna um árabil og helst áratuga skeið rétt eins og samstaða félagslegu aflanna í borginni varð til þess að koma Sjálfstæðisflokknum loksins frá völdum í borginni 1994. Síðan má segja að Reykjavík hafi blómstrað eftir að hún losnaði undan ægivaldi Sjálfstæðisflokksins sem fékk þar jafnvel hreinan meiri hluta, töluvert undir 50% atkvæða út af óheppilegri atkvæðadreifingu, sama og flokkurinn er að stóla á núna víða um land. Uppgangur sjálfstæðismanna í borginni eftir að kosningabandalag jafnaðar- og félagshyggjumanna brast er náttúrlega viðvörun um hvað gerist ef samstöðuna brestur hjá félagslegu öflunum. Önnur viðvörun til félagslega þenkjandi fólks um hvað gerist ef samstöðuna brestur. Einn hleypur út undan sér og gerist hækja Sjálfstæðisflokksins þó að mjög ranglátt sé að kenna alltaf hækjunni heltina, það er ranglátt því að auðvitað er heltin Sjálfstæðisflokknum að kenna en ekki hækjunni, hún einfaldlega styður undir arminn.

Enn önnur viðvörun til félagslega þenkjandi fólks er að sjálfsögðu frumvarpið sem við ræðum hérna í dag, þ.e. einkavæðingarárátta sjálfstæðismanna og það áhlaup sem nú stendur yfir að samfélagslegum markmiðum á Íslandi og í leiðinni það áhlaup sem sumir segja að standi yfir gagnvart einkareknum ljósvakamiðlum sem nú um stundir eru margir hverjir í eigu fyrirtækja og athafnamanna sem eru mjög svo í óþökk Sjálfstæðisflokksins og hafa haft horn í síðu þeirra athafnamanna og beitt ótrúlegustu meðulum til að koma höggi á þá. Sú sorgarsaga verður rakin betur síðar. En allt tengist þetta hvert öðru af því að líklega er þetta frumvarp um Ríkisútvarpið hf. angi og framhald af þeirri skrýtnu málafylgju sem fjölmiðlalögin voru hérna fyrir nokkrum missirum og urðu að þeim skrípaleik sem kannski hafi flýtti því mjög að Davíð Oddsson hætti í pólitík, ég veit það ekki. Svo hrikalega fór sá farsi og svo illa fór sá skrípaleikur með Sjálfstæðisflokkinn sem hefur ekki borið barr sitt síðan og er mjög mildilega sagt ótrúverðugur þegar kemur að umræðum um fjölmiðlun, fjölmiðlalög og setningu hvers konar fjölmiðlalaga á Íslandi, ótrúverðugur mildilega sagt, til að leyfa þeim nú að njóta vafans og sanngirninnar.

Meginumræðuefni ræðu minnar hér hefur annars vegar verið tilgangurinn með Ríkisútvarpinu og hins vegar fjármögnun hins opinbera á útvarpinu, þetta skiptir meginmáli, annars vegar hlutverk RÚV og hins vegar fjármögnunin.

Í Morgunblaðinu 20. apríl birtist nokkuð athyglisverð grein eftir Guðlaug Stefánsson, sem er hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, sem áður mátti nú kannski heita eitt af vígum Sjálfstæðisflokksins þar sem þeir ættu alla vega í hús að venda. Nú gera talsmenn frá Samtökum atvinnulífsins mjög alvarlegar athugasemdir við frumvarpið um RÚV og í fyrirsögn sinni að greininni spyr Guðlaugur Stefánsson hagfræðingur: „Hvað er að frumvarpi um RÚV?“

Það er náttúrlega fjöldamargt — svo að ég svari spurningunni — eins og ég hef rakið hér í dag og á miðvikudaginn, en hann kemur með mjög glöggar athugasemdir í þessa veru sem styðja mjög undir þann málflutning sem stjórnarandstaðan hefur haft uppi.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið hf. felur í sér að stofnað verði hlutafélag um rekstur RÚV í 100% eigu ríkisins. Brýnt er að með lögunum verði staðfest að útvarps- og sjónvarpsrekstur er ekki lögvarin einokunarstarfsemi ríkisins, eins og áður var, heldur atvinnustarfsemi sem hverjum og einum er frjálst að stunda sem hefur til þess tilskilin leyfi.“

Ég vek athygli á það sem segir í framhaldinu er algjört grundvallaratriði, þeir eru ekki að finna að smáatriðum. Þeir finna að undirstöðum frumvarpsins, sem löngu eru fallnar að mínu mati af því að þetta frumvarp er klastur, illa ígrundað og illa unnið klastur af hálfu hæstv. menntamálaráðherra og er hæstv. ráðherranum, virðulegi forseti, mjög til pólitískrar háðungar. Minnisvarðinn mikli sem hæstv. menntamálaráðherra ætlaði sér að reisa með þessu frumvarpi hefur snúist upp í skopleik af hálfu meiri hlutans.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í umsögn Samtaka atvinnulífsins til Alþingis var komist að þeirri niðurstöðu að frumvarpið samræmdist ekki ákvæðum EES-samningsins um ríkisstyrki og tryggði ekki viðunandi jafnræði milli aðila í útvarps- og sjónvarpsrekstri. Nú liggur fyrir álit meirihluta menntamálanefndar Alþingis. Er þar lítið horft til þessa sjónarmiðs og aðeins lagðar til óverulegar breytingar á upphaflegu frumvarpi.

Fjármögnun RÚV felur í sér ríkisstyrk.“ — Það sem ég talaði um hérna áðan. — „Er þetta staðfest í bréfaskiptum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við íslensk stjórnvöld. Reglur EES-samningsins um ríkisstyrki gilda um frumvarpið. Stjórnvöldum ber því að tilkynna efni þess til ESA og er óheimilt að hrinda nýrri ríkisaðstoð í framkvæmd fyrr en samþykki liggur fyrir frá ESA.“

Síðar segir í greininni eftir Guðlaug Stefánsson hagfræðing hjá Samtökum atvinnulífsins:

„Vandamálið er stærst á markaði eins og þeim íslenska þar sem ríkisstyrktri stöð er einnig heimiluð tekjuöflun með sölu auglýsinga.“

Það sem ég gerði mjög að umtalsefni mínu hér fyrir hádegi, það forskot sem ríkið veitir Ríkisútvarpinu, það frávik frá eðlilegum samkeppnisreglum annars vegar á atvinnumarkaði, verður að réttlæta með mjög ítarlegum og nákvæmum hætti og það er gert að sjálfsögðu með því að endurskilgreina hlutverk almannaútvarpsins frá grunni og í öðru lagi liggur því algjörlega til grundvallar að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði þannig að það verði eitthvað sem megi segja eðlilegt á þeim litla markaði sem við búum á og gefi einkareknum ljósvakamiðlum rými til rekstrar. (Gripið fram í.) Eðlilegt að mati mínu væri að umfang RÚV á auglýsingamarkaði færi ekki yfir 15% eftir einhver tiltekin ár, kannski á áratug. Það er 30% í dag, 50–60% á sviði ljósvaka, það færi niður í 25%, 20%, 15%, væri u.þ.b. viðmiðið sem umfang að heildarauglýsingamarkaði. (Gripið fram í.) Búinn að stúdera málið vel. Þetta væri mjög farsæl leið, annars vegar sanngjörn gagnvart útvarpinu, sanngjörn gagnvart auglýsendum, sanngjörn gagnvart hlustendum, neytendum, okkur sem eigum útvarpið — ef Sjálfstæðisflokknum tekst ekki að selja það — okkur sem eigum útvarpið til að (Gripið fram í.) nálgast upplýsingar frá auglýsendum, Framsóknarflokknum og öðrum auglýsendum. Ég sá að Framsóknarflokkurinn er byrjaður að auglýsa í sjónvarpi fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, snemma á ferðinni, nýtir sér miðilinn. Það var reyndar á Stöð 2.

Það þarf því að draga mjög úr og skilgreina og takmarka umfang RÚV á auglýsingamarkaði um leið og við skilgreinum hlutfall af innlendu, leiknu dagskrárefni í dagskrá stöðvanna og svo í að endurskilgreina alveg frá grunni tilgang og markmið með ríkisreknum fjölmiðli, sem sjálfstæðismennirnir, sölumennirnir, hæðast mjög að í frumvarpi sínu og leggja að líkum við það að ríkið ræki tímarit eða ríkisdagblað, eins og 1. flutningsmaðurinn að þessu frumvarpi, Pétur H. Blöndal, hefur oftsinnis sagt. Honum finnst það fáránlegt að ríkið reki fjölmiðil en samt eru þessir sömu sjálfstæðismenn, sölumennirnir sömu, að berjast fyrir því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi en ekki selt. Hver í ósköpunum á að trúa þessari vitleysu? Hver á að trúa svona tvískinnungi?

Af hverju geta sjálfstæðismenn ekki staðið við sitt? Af hverju geta sölumennirnir ekki hent af sér hempunni og verið svolítið heiðarlegir í málflutningi? Það væri nú bragur að því. (Gripið fram í.) Jákvætt skref í átt að hverju, hv. þingmaður? Í átt að því að selja RÚV? (Gripið fram í.) Nákvæmlega. Þess vegna er þessi tortryggni, þess vegna kemur ekki til greina að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi af því að við treystum ekki Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum kannski síður en áður var til að móast við, þó að ég voni að þeir muni taka áfrýjun minni alvarlega og standa nú í lappirnar og koma með okkur félagshyggjumönnum og -konum á Íslandi í þann pólitíska leiðangur sem sendir Sjálfstæðisflokkinn í pólitíska útlegð og varanlega stjórnarandstöðu hér á Alþingi Íslendinga.

Í framhaldi af orðum Guðlaugs um vandamál á ríkisstyrktri stöð sem heimilt er að afla tekna með auglýsingum segir, með leyfi forseta:

„Kjarninn í reglunum er sá að aðstoð fær því aðeins staðist að hún sé nauðsynleg til að greiða kostnað af þjónustu í almannaþágu. Styrkur umfram þetta mark er óheimill.“

Sem sagt að mati ESA er styrkur umfram það sem telst til þjónustu í almannaþágu óheimill ríkisstyrkur til RÚV. Þar komum við akkúrat að kjarna málsins. Þess vegna þarf almannaþjónustuhlutverkið að vera svo skýrt, þess vegna þarf hlutverk RÚV að vera eitthvað annað en að keppa við markaðsstöðvarnar, einkareknu stöðvarnar, um þætti eins og Lífsháska og Aðþrengdar eiginkonur og hvað þetta allt heitir, af því að það er verið að nota skattpeninga, ríkisstyrki til þess að kaupa slíka annars flokks ameríska afþreyingu, það er að mati ESA óheimilt og er að sjálfsögðu fáránlegt í sjálfu sér. Þess vegna þarf að endurskilgreina almannaútvarpið áður en það er hægt að réttlæta það eða ráðast í það að ríkisstyrkja fjölmiðilinn með þessum hætti.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í reglunum felst að litið er á RÚV hf. sem verktaka sem uppfylla skal tilteknar skyldur. Forsenda undanþágu er að kröfur um almannaþjónustu RÚV séu vel skilgreindar.“

Nákvæmlega. Þær eru óskilgreindar hins vegar í frumvarpinu. Þar mistekst hæstv. menntamálaráðherra algjörlega í algjöru grundvallaratriði undir frumvarpinu, mistekst að skilgreina þetta, og þess vegna er frumvarpið húmbúkk sem á ekki að fara hér áfram inni á hinu háa Alþingi, það á að fara aftur í nefndina, aftur í vinnu þannig að það komi boðlegt til Alþingis en ekki sem það fljótfærnislega klastur sem það er.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í heild felur greinin hins vegar ekki í sér nothæfa skilgreiningu. Engar mælanlegar kröfur eru þar um skyldur RÚV.“ — Sem sagt engar mælanlegar kröfur. — „Frumvarpið jafngildir því að ríkið tryggði verktaka árlega 2.500 milljónir króna þar sem verklýsingin hljóðaði upp á að byggð skyldu blámáluð hús í þjóðlegum stíl“ — í anda Sjálfstæðisflokksins — „en engar kröfur gerðar um magn, umfang eða verkskil.“

Sem sagt, það er verið að veita útvarpinu ríkisstyrk og forskot, frávik frá heilbrigðri og eðlilegri samkeppni upp á 2.500 milljónir á ári án þess að það sé skilgreint með neinum boðlegum eða vitlegum hætti í frumvarpinu af hverju þessi ríkisstyrkur á að koma til og ESA, Eftirlitsstofnun EES segir einfaldlega og blákalt að sá ríkisstyrkur sé óheimill. Og þar sem óheimilt er að ríkisstyrkja til annars en þess sem er í almannaþágu, atvinnufyrirtæki á markaði, þá er þetta frumvarp þverbrot á reglum ESA um almannaþjónustuhlutverkið, það liggur bara fyrir. Þess vegna er fráleitt að frumvarpið gangi hér áfram, algjörlega fráleitt, 2.500 millj. kr. frávik frá eðlilegum samkeppnisreglum og heilbrigðri samkeppni í landinu af því að það er ekki skilgreint í frumvarpinu til hvers eigi að nota ríkisstyrkinn í almannaþágu. Þetta er nú svo opið og loðið að það er eins og hæstv. menntamálaráðherra hafi bara gengið frá skrifborðinu með frumvarpið hálfkarað. Svo losaraleg eru vinnubrögðin og svo illa er frumvarpið úr garði gert.

Áfram segir Guðlaugur Stefánsson, með leyfi forseta:

„Skilgreiningin er arfur gamalla lagaákvæða um RÚV. Hún miðast ekki við afurðir RÚV heldur að það tryggi sjálfkrafa góðan árangur að leggja RÚV til fjármuni og tryggja þar fólki vinnu. Þessi viðhorf eru tímaskekkja sem horfið hefur verið frá á öðrum sviðum, t.d. varðandi opinber framlög til kvikmyndagerðar og rannsókna- og þróunarmála. Slík framlög eru síður tengd ákveðnum stofnunum en í vaxandi mæli verkefnabundin miðað við skilgreind markmið.“

Sem sagt, frumvarpið er tætt hér sundur og saman með mjög málefnalegum hætti af hagfræðingi Samtaka atvinnulífsins. Það er ekki einhver gólandi kommúnisti sem sjálfstæðismenn geta afgreitt frá sem slíkan, sem einhvern pólitískan sendiboða vinstri manna til að koma höggi á málið. Þetta er maður úr hinni áttinni.

Áfram segir hér, með leyfi forseta:

„Vegna gagnrýni leggur meiri hluti menntamálanefndar til að lappað verði upp á skilgreininguna með því að færa til 13. og 14. tölulið 3. greinar. Þetta eru ekki viðunandi viðbrögð. Skilgreiningin í heild á ekki við í nútímalegri löggjöf. Þessi í stað þurfa að koma mælanlegar kröfur um það hvaða þjónustu skattgreiðendur eiga að fá frá RÚV fyrir þann styrk sem hlutafélaginu er ætlaður.“

Hlutafélaginu er ætlaður styrkur upp á 2.500 milljónir á ári og það eru engar mælanlegar kröfur á almannaþjónustuna settar fram í frumvarpinu. Algjörlega óboðlegt.

Áfram, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er engin ákvæði að finna um að óháður aðili skuli annast eftirlit með því að RÚV sinni í raun þeim skyldum sem opinber fjármögnun þess gerir ráð fyrir. Þessu má jafna við að í samningi ríkisins við verktaka væri öllu verkeftirliti sleppt. Slíkt er auðvitað fráleitt. Breyting á RÚV í hlutafélag felur í sér stóraukið sjálfstæði þess, sem fjarlægist þar með afskipti pólitísks framkvæmdarvalds. Það er jákvætt en gerir um leið kröfu til þess að hlutverkið sé vel skilgreint og eftirlit virkt.“

Hlutverkið er óskilgreint og eftirlitið er ekkert, það er kjarni málsins.

Áfram örlítið, með leyfi forseta:

„Ýmis erlend fordæmi eru um eftirlit með ríkisstyrktum útvarpsrekstri. Má þar t.d. benda á breska fjarskiptaeftirlitið OFCOM, sem annast eftirlit með því að BBC uppfylli skyldur um þjónustu í almannaþágu.“

BBC, sem meira að segja íhaldsflokkurinn í Bretlandi lét í friði í sínu einkavæðingarofstæki, sem nú hefur skilað sér til Íslands mörgum, mörgum árum eftir að það galt afhroð í Bretlandi.

Rétt í lokin, „Víti til varnaðar,“ segir Guðlaugur Stefánsson, með leyfi forseta:

„Á dögunum ógilti EFTA-dómstóllinn ákvörðun ESA um lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs (ÍLS). Málefni ÍLS og RÚV eru sambærileg að því leyti að í báðum tilvikum reynir á undanþágu skv. 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins. Íslensk stjórnvöld lögðu hart að ESA að veita undanþágu í máli ÍLS. EFTA-dómstóllinn taldi hins vegar vafa leika á því að fyrirkomulagið stæðist og hefði ESA borið skylda til að opna formlega rannsókn. Málið staðfestir aukna festu í túlkun EES-löggjafar á þessu sviði og kröfu um að ríkisstyrkir raski ekki samkeppni. Hliðstæða þróun má greina í dómaframkvæmd dómstóla ESB.“

Síðan kemur kjarni málsins, með leyfi forseta:

„Dómurinn ætti að verða víti til varnaðar. Í frumvarpi um RÚV skortir nothæfa skilgreiningu á því hvað RÚV á að gera sem og eftirlit með því hvað það gerir í raun. Alþingi væri sómi að því að ráða bót á þessu með nútímalegri ákvæðum og forðast nýleg mistök í hliðstæðu máli.“

Frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. er víti til varnaðar um vonda vinnu við lagasetningu. Þetta er vont frumvarp, það er illa ígrundað og það fellur á prófinu í öllum meginatriðum, hvað varðar skilgreiningu á hlutverki almannaútvarpsins, hvað varðar fjármögnun þar sem farin er versta leiðin, nefskattur, en ekki sú besta og boðlegasta sem væru annaðhvort fjárlög eða áframhaldandi afnotagjöld eins og ég rakti hér í fyrri hluta ræðu minnar þegar ég fjallaði um fjármögnunarleiðirnar sem í boði eru. Umfang RÚV er ekki takmarkað, hlutfall leikins innlends sjónvarpsefnis í dagskrárgerð er ekki skilgreint með neinum hætti og svo mætti lengi telja. Fyrir rekstrarforminu eru engin rök, það eru engin rök fyrir að hlutafélagavæða RÚV, nema eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kallaði fram í hér áðan, það er skref í átt að því að selja útvarpið, þar staðfesti sölumaður Sjálfstæðisflokksins í málefnum RÚV tilgang Sjálfstæðisflokksins í þessu máli sem er að sjálfsögðu að selja Ríkisútvarpið. Í þessu máli stendur ekki steinn yfir steini, þetta er víti til varnaðar um vond vinnubrögð hér á Alþingi af hálfu meiri hlutans, að koma með svo illa unnið, illa ígrundað mál, klastur inn á Alþingi og það bíður vonandi skipbrot í þingstörfunum í vor og megi það aldrei verða að lögum óbreytt.

Það vildi ég segja rétt að lokum, virðulegi forseti, megi frumvarpið um Ríkisútvarpið ekki verða að lögum og ég vona að Framsóknarflokkurinn sjái að sér og geri kröfu um það í ríkisstjórnarsamstarfinu að þetta mál, þetta skref í átt að einkavæðingu Ríkisútvarpsins verði ekki stigið.