132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[22:28]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég byrji á síðustu spurningunni, hvort aðrar heilbrigðisstéttir geti vísað á hjartalækna, þá tel ég að svo ætti að vera ef við værum að festa tilvísunarkerfið í sessi. En ég lít svo á að tilvísunarkerfið sé tímabundið og að í því þurfi að vera ákveðinn hvati til að semja. Þetta er óþægilegt fyrir bæði sjúklinga og fyrir hjartalækna, að geta ekki fengið tilvísun frá öðrum en heimilislæknum. Ég tel að með því skapi heilbrigðisráðherra sér ákveðna samningsstöðu og við þessar aðstæður þurfi að beita þeim ráðum sem hægt er að beita án þess að það valdi verulegum óþægindum fyrir sjúklinga.

Þegar ég svaraði spurningunni áðan um hvort hægt væri að kaupa sig fram fyrir röðina þá sagði ég að sett yrði upp sama verð hvort sem sjúklingurinn færi fyrst til heimilislæknis eða beint til sérfræðingsins þá var ég náttúrlega að tala um sama lækninn. Ég hef enga yfirsýn yfir það hvort hjartalæknar muni samræma gjaldskrár sínar. En gagnvart einum og sama lækni er þetta í raun sama verð. Ég var ekki að reyna að snúa út úr eða að reyna í örvæntingu að finna einhverjar leiðir heldur var ég bara að svara því sem hv. þingmaður spurði um.

Varðandi það hvort streymi muni aukast á bráðavaktir Landspítala hér eftir fremur en hingað til þá hefur það alltaf verið þannig að sjúklingar með bráðaeinkenni leita til bráðasviðs Landspítala. Þeir hafa ekki leitað beint til hjartalækna. Það er yfirleitt þannig að menn þurfa að bíða dálítinn tíma eftir þjónustu sérfræðinga.