132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:04]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er samninganefnd heilbrigðisráðherra sem er í þessum samningum og það er rétt að þeim tölum sem hafa verið nefndar ber ekki saman við þær tölur sem mínir samningamenn hafa gefið mér upp. Ég fer hér með afrúnnaðar tölur en þetta eru um 25 millj. kr. fyrir síðasta ár og 35–40 millj. kr. fyrir árið í ár.

Það hefur ekki verið bent á neinar lausnir hér. Fulltrúar Samfylkingarinnar segja: Það á bara að semja, það á að semja. Í þessu tilviki tókust ekki samningar, það bar of mikið á milli. Menn eru að velta því fyrir sér hvort aðrir komi í kjölfarið og ég skil alveg þær áhyggjur. En ég spyr líka: Ef samið er upp á eitthvað sem menn eru ekki sannfærðir um að sé eðlilegt, þ.e. að þetta séu of háar tölur, halda þingmenn virkilega að aðrir hópar sérfræðinga komi þá ekki í kjölfarið? Það má vel vera að þeir komi í kjölfarið og reyni að semja um eitthvað við okkur, það má vel vera. En í hvaða samningsstöðu erum við ef við semjum bara upp á það sem sérfræðilæknar vilja fá? Við teljum einfaldlega að þarna sé of mikið gap á milli þannig að menn verði að skoða þetta í heildarsamhengi. Ég tek heils hugar undir það sem kom fram hjá hv. þm. Þuríði Backman áðan. Að sjálfsögðu verður að vera einhver stýring á þessu, að sjálfsögðu verður að vera kvóti. Annars er þetta sjálftökukerfi. Við verðum að hafa sannfæringu fyrir því að við séum að greiða eðlilegt verð fyrir eðlilega mikið magn af þjónustu. Annars höldum við ekki utan um hlutina. Um er að ræða skattpeninga borgaranna þannig að menn verða að sýna ábyrgð í þessari umræðu.