133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:03]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili að mörgu leyti áhyggjum með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni af vaxandi viðskiptahalla við útlönd. En ég vil þó benda hv. þingmanni á að það fyrirtæki sem nú er verið að reisa á Reyðarfirði mun skapa þjóðarbúinu gríðarlegar útflutningstekjur. Ekki bara á næstu árum, heldur áratugum. Þannig að við verðum nú að halda öllu heildarsamhenginu til haga í þessari umræðu.

Mig langar svo í lok umræðunnar að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji að stjórnarandstaðan muni sameinast um tillögur vegna fjárlaga fyrir árið 2007. Stjórnarandstaðan tilkynnti að hún mundi vera mjög samhent á þessu þingi. Stjórnarandstaðan hefur talað út og suður hér. Þingmenn Frjálslyndra vilja draga saman. Þingmenn Vinstri grænna vilja bæta í ríkisútgjöldin og því er eðlileg spurning: Mun stjórnarandstaðan standa sameiginlega að tillögum að fjárlögum 2007?