133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:26]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef sagt hér fyrr í dag þá liggja ekki fyrir endanlegar ákvarðanir um frekari stóriðju hér á landi á næstunni þó að um það séu áætlanir. Þar af leiðandi er ekki hægt að taka tillit til þeirra í þjóðhagsáætlun okkar og forsendum okkar fyrir fjárlögin. Við getum ekki byggt fjárlögin á einhverju sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um. Við þekkjum það frá fyrri tíð þegar verið var að byggja áætlanir og fjárlög á byggingum álvera sem síðan voru aldrei reist. Ég held að við eigum ekki að endurtaka þann leik.

Ef hv. þingmaður vill gera sér grein fyrir því hvaða áhrif það hefði á forsendurnar og á það hvernig þróun efnahagsmála þjóðarinnar yrði líklega þá bendi ég honum á vorskýrslu þjóðhagsáætlunar fjármálaráðuneytisins sem gefin var út í apríl. Þar er sérstakur kafli um það hvaða áhrif þessar framkvæmdir gætu haft. Þar af leiðandi hefur verið lögð í það vinna að meta það og við vitum það og ef til kæmi höfum við forsendur til þess að bregðast við því. En enn sem komið er hefur ekki komið til þess að ákvarðanir lægju fyrir og að við gætum þar af leiðandi tekið tillit til þessara aðstæðna því þær eru ekki komnar upp.