133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:10]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé ekki að það skili neinu að við séum að fjargviðrast eitthvað í ræðustóli Alþingis um þessi mál. Við erum að deila hér um keisarans skegg sem skiptir í sjálfu sér ekki máli eins og umræðan er að þróast núna. Við eigum, eins og við höfum sagt hér í ræðum, þingmenn stjórnarandstöðunnar, eftir að fara yfir þessi mál í umhverfisnefnd. Við höfum lýst okkur reiðubúin til að fara gaumgæfilega yfir málin og skoða þau frá öllum hliðum.s Við höfum því lýst yfir að við viljum að hlutur heimamanna sé mikill og glæsilegur í Vatnajökulsþjóðgarði og við viljum að þessu máli verði á endanum lent farsællega.

Ég held að það skipti mestu máli að halda ákveðinn frið um þetta mál núna og þó að mér hafi orðið á í æsingi við hv. 2. þingmann Norðausturkjördæmis áðan að halda því fram að sjálfstæðismenn hefðu sérstakt horn í síðu opinberra stofnana þá á það ekki síst rætur að rekja til þeirra gjörninga sem gerðir voru hér í dag þegar við einkavæddum Ríkisútvarpið með lögum sem fóru í gegnum Alþingi. Þar drógu sjálfstæðismenn vagninn.

Ég held að ég þurfi ekki að fara miklu lengra út í ummæli mín sem að lúta að því að sjálfstæðismenn hafi haft sterka löngun til að losa sig undan oki ríkisstofnana og þegar þeir hafa getað hafa þeir einkavætt þær. Núna er það reyndar ekki til staðar, eða hvað? Ætlar hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir kannski í fyllingu tímans að skoða það hvort Vatnajökulsþjóðgarður geti orðið hlutafélag sem síðan verði hægt að selja? Kannski Alcoa vilji kaupa?