133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

málefni grunnskólakennara.

[12:12]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að það væri gott að þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu skoðun á þessu máli. Það er hins vegar ákaflega slæmt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafði enga skoðun á þessu máli. Það virðist vera sem hann deili áhugaleysi hæstv. ríkisstjórnar á þeirri stöðu sem er að koma upp í grunnskólanum.

Það vill svo til, herra forseti, að hv. þingmaður ætti sem fyrrverandi borgarfulltrúi og núverandi þingmaður og stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, einn af þeim sem hafa af hennar hálfu verið í hvað mestum trúnaðarstörfum á sveitarfélagastiginu, að vita það að sú staða sem nú er komin upp og sá vandi sem hefur ríkt í grunnskólanum á síðustu árum stafar fyrst og fremst af því að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki látið sveitarfélögin fá nægt fjármagn, hún lét ekki nægilegt fjármagn fylgja því þegar grunnskólinn var færður yfir til þeirra. Það er hin blákalda staðreynd í þessu máli og það er það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ætti að vita og auðvitað veit hann það. Ef hann meinar það að honum sé málið kært eru heimatökin hæg. Það vill svo til að hv. þingmaður er enn þá áhrifamaður í borgarstjórn Reykjavíkur og það sem kennararnir voru að mótmæla í gær var ekki síst framkoma borgarstjórnar Reykjavíkur gagnvart þeim. Það er þess vegna sem við erum að reyna hér að fá ríkisstjórnina til að koma að þessu máli, til að koma vitinu fyrir sjálfstæðismennina í borgarstjórn Reykjavíkur. Það vill svo til eins og ég sagði að heimatökin eru hæg því að hér sitja hvor á sínum stólnum, ráðherrabekknum og í sæti hv. þingmanns, þeir tveir aðilar í Sjálfstæðisflokknum sem dyggast fylgja borgarstjóranum að málum. Ef þeir meina eitthvað með því að þeir vilji koma þessum málum í lag ættu þeir að sjá sóma sinn í því að kynna sér málin og beita ítökum sínum í borgarstjórn Reykjavíkur, ekki síst hv. fyrrverandi borgarfulltrúi.