133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:18]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefði svo sem verið ánægjulegt að fá tækifæri til þess í þessari lotu einnig að ræða við hv. þm. Ögmund Jónasson um einkaframkvæmdir í vegagerð, (ÖJ: Við gerum það bara á eftir.) sérstaklega með tilliti til þess að minn aðalpáfi í þeim efnum er fyrrverandi samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hugmyndafræðingur hvað það varðar.

En hvað varðar strandsiglingar er það alveg rétt að í mörgum tilvikum hefði maður getað ímyndað sér að markaðurinn sæi sér hag í því að hafa einhvern hluta af flutningum á sjó, þ.e. að halda úti siglingum með þann varning sem þarf að flytja milli landshluta. Auðvitað er alltaf eitthvað flutt með ströndinni með skipum, það er alveg ljóst þó það séu ekki formlegar áætlunarsiglingar með ströndinni eins og var áður.

Það er ekkert launungarmál að ég hefði talið það æskilegt að boðið væri upp á siglingar með ströndinni. Það er spurning hvort við eigum að taka það upp aftur á þeim nótum að sérstakur ríkisstuðningur væri til strandsiglinga. Það er mjög flókið mál vegna þess að á hinu Evrópska efnahagssvæði eru vissulega vandkvæði að brjótast inn í samkeppnisumhverfi með ríkisstyrkjum og í dag er samkeppnisumhverfi hvað varðar landflutningana. Ef ríkið kæmi inn með sérstökum hætti yrði að gera það þannig að það bryti (Forseti hringir.) ekki í bága við þau lög og þær reglur sem í gildi eru. En það er ekkert launungarmál, svo ég endurtaki það, að ég tel að markaðurinn hefði átt að sinna þessu og ætti að gera það.