133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í grundvallaratriðum erum við sammála. Það skiptir meginmáli hvers vegna þessir flutningar lögðust af. Ég held að það sé alveg rétt sem hv. þingmaður segir, í sumum tilvikum eru landflutningarnir hagkvæmari fyrir þann sem nýtir sér þessa þjónustu, fær vöruna beint frá einum stað til annars, hún er komin strax og jafnvel þótt það sé eitthvað dýrara telja menn það þess virði. Annað kann að vera, að menn hafi ekki nýtt sér sjóflutningana sem skyldi vegna þess að ekki hafi verið boðið upp á nægilegar tíðar ferðir og nægilegt öryggi. Ég kann ekki svörin við þeim spurningum. Mergurinn málsins er náttúrlega sá að þeir aðilar — og þar hlýtur maður að horfa til þeirrar ábyrgðar sem hvílir á þeim fyrirtækjum sem sinna þessum hlutum — fóru úr landi vegna þess að þeir gátu grætt meira annars staðar. Það á við um Eimskipafélagið sem hætti að vera skipafélag og gerðist „group“, ein grúppan enn.

Ég legg áherslu á að ég fagna þessum yfirlýsingum hv. þingmanns og tek undir það með honum að það á að vera hægt að styrkja sjóflutninga ekkert síður en aðra flutninga og aðra þætti í samgöngukerfinu eins og hann bendir á. Ég segi: Vindum okkur í verkin.