133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi þau erindi sem bárust iðnaðarráðuneytinu, ég held fyrir tveimur árum síðan, eitthvað svoleiðis, sem ekki hefur verið svarað, þ.e. erindi frá Skagafjarðarveitum og Norðurorku um viðræður um að fá að yfirtaka að einhverju eða öllu leyti hlut Rariks á viðkomandi svæðum. Ég spyr: Koma þau erindi ekki sjálfkrafa til fjármálaráðherra eða þarf að senda þau aftur inn? Tekur ráðherra ekki bara við öllu búinu sem er verið að færa þarna á milli, frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra? Mér finnst að það eigi að vera svo og að ráðherra eigi ekki að skjóta sér undan því með þessu móti heldur kalla eftir öllum gögnum.

Hitt vil ég árétta að þetta er í sjálfu sér stórmál og sýnir vankunnáttu hæstv. ráðherra ef hann lítur það ekki sem stórmál hvernig verið er að fara með beiðni um rannsóknarleyfi og virkjunarrétt í Skagafirði. Ég spyr: Getur það gengið upp saman að Landsvirkjun sé með eina umsókn um virkjanir í jökulánum í Skagafirði og Rarik með aðra, en Landsvirkjun fer með öll málefni Rariks? Hvernig getur það verið að þeir aðilar geti verið með tvær umsóknir eins og nú er í gangi, rannsóknarleyfi fyrir Skatastaðavirkjun og virkjunarheimild fyrir Villinganesvirkjun? Ég get ekki séð það.

Ég vil að hæstv. ráðherra, þó að hann geti ekki svarað þessu betur nú, kanni það og geti svarað því síðar: Hver fer með möguleikana til virkjunar í jökulánum í Skagafirði? Reyndar vona ég að til þeirra komi aldrei og það hefur verið barátta Vinstri grænna að berjast gegn öllum virkjunaráformum í jökulánum í Skagafirði. En bæði Landsvirkjun og Rarik (Forseti hringir.) og fleiri hafa sótt um það og þá er eðlilegt að það liggi á hreinu (Forseti hringir.) hver sé aðild ríkisins að málinu.