133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[11:58]
Hlusta

Frsm. minni hluta landbn. (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu mati hefur enginn hag af offramleiðslu sauðfjárafurða eða offramleiðslu í þessum geira nema sláturhúsin. Þau eru þannig fyrir tilverknað stjórnvalda að þau þurfa að hafa mikið sauðfé til að slátra og þar bera stjórnvöld vissulega mikla ábyrgð. Hins vegar langar mig til að spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson hvers vegna hann vilji ekki frekar styðja að búháttabreytingum í sveitum en viðhalda of mikilli framleiðslu fyrir íslenskan markað eins og það hlýtur að þýða ef bændur telja nauðsynlegt að flytja út ákveðið hlutfall af framleiðslu sinni. Það hlýtur að þýða að þeir viti að þeir framleiða of mikið fyrir íslenskan markað.