134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

strandsiglingar.

[15:40]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Fátt er um svörin ef persónulegar tilfinningar mínar eru orðnar aðaluppistaðan í svörum hæstv. ráðherra, gremja þess sem hér stendur.

Ég er í ágætu skapi í dag. Ég flyt hins vegar fram gremju íbúa Vestmannaeyja sem hafa beðið eftir þessum úrbótum í áraraðir. Ég er talsmaður þeirrar gremju. Þetta eru engin svör: Hyggst vinna að málinu.

Þetta hafa Vestmannaeyingar heyrt í áraraðir, að menn séu að vinna að málum, og það er ekkert að gerast. Vestmannaeyingum hefur verið haldið í óvissu og þeir hafa verið dregnir á asnaeyrum í þessum málum. Það er kominn tími til að það verði tekið af skarið með búsetujafnræði þeirra hvað samgöngur varðar.