135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[12:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að reyna að svara hæstv. ráðherra. Ef hæstv. ráðherra telur að ég hafi verið að tala niður aðgerðir á landsbyggðinni þá er það rangt. Það er einhver misskilningur sem ráðherra hefur komið sér upp. Ég var ekki að því. Ég var einfaldlega að benda á að ýmislegt sem menn hafa verið að stefna að á undanförnum árum er inni í þessari upptalningu og meðal annars að flýta uppbyggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Ég var einn af þeim sem studdu þá tillögu svo að ég upplýsi hæstv. ráðherra um það. Ég var einfaldlega að benda á að mér fyndist að ríkisstjórnin legðist í ákveðna leit að því að láta allt sem hún er að gera heita mótvægisaðgerð. Mér finnst að margt af því sem verið er að leggja til sé ekki hægt að nefna mótvægisaðgerðir. Það eru ágætisaðgerðir út af fyrir sig og ekki hægt að amast við þeim og ég var ekki að gera það. Ég var ekki að leggjast gegn tillögunum sem slíkum. Ég var að benda á að mér fyndist þær ekki eiga heima undir heitinu mótvægisaðgerðir.

Ætli sá sem hér stendur hafi ekki talað nokkuð oft fyrir því á undanförnum árum að efla hafrannsóknir og einnig fyrir ýmsum breytingum sem ég teldi að þar þyrftu að komast á. Venjulega kosta breytingar talsverða fjármuni þannig að ég hygg að því verði ekki fundinn staður að ég hafi lagst gegn því að efla hafrannsóknir. Ég hef hins vegar haft ýmislegt við hafrannsóknir að athuga, hvernig að þeim er staðið, hvernig menn leggja út af þeim o.s.frv. Ég hef ekki neina ástæðu til að breyta háttum mínum í því, hæstv. forseti.