135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

tilraunaveiðar í Ísafjarðardjúpi.

[15:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli á því í tilefni af orðum hv. málshefjanda, Björns Vals Gíslasonar, að við löggjafarsamkoman þurfum að skoða með hvaða hætti við rannsökum lífríkið og auðlindina. Við rekum annars vegar veiðarfærarannsóknir undir Hafrannsóknastofnun og við rekum líka rannsóknir á lífríkinu. Það kemur fyrir eins og í því dæmi sem hér um ræðir að þessar rannsóknir stangast hverjar á aðrar, þ.e. veiðarfærarannsóknirnar ógna lífríkinu og rannsóknunum á því.

Ég vil koma þeirri hugsun á framfæri sem ég tel að sé virkilega þess virði að við hugsum um hér, þ.e. hvort kannski eigi að aðgreina þessa tvo rannsóknaþætti, hvort rannsóknir á veiðarfærum, rannsóknir atvinnuvegarins, eigi kannski heima undir einhverri allt annarri stofnun en rannsóknirnar á lífríkinu sem hljóta alltaf að miða að vernd lífríkisins. Í mínum huga ganga þær þá framar rannsóknum á veiðarfærunum, rannsóknum atvinnuvegarins, eða í öllu falli þannig hönd í hönd að lífríkið skaðist ekki af rannsóknum á veiðarfærum. Ég held að það séu mjög mikilvæg pólitísk skilaboð til okkar að við þurfum að skoða hér með hvaða hætti við nýtum sjávarauðlindina á sjálfbæran hátt. Við getum aldrei gert það með því að gera rannsóknir af því tagi sem hér er verið að gera og við hljótum að láta lífríkið, náttúruna og viðhald auðlindarinnar njóta vafans í þeim efnum.