135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

ræðufjöldi í umræðum.

[12:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka mótmæli mín við þá ákvörðun forseta áðan að meina mér að fá orðið á þeirri forsendu að þinghefð eða venja væri fyrir því að meina mönnum um að fá orðið strax í kjölfar ræðu sem þeir hefðu flutt. Samkvæmt þingskapalögum hef ég rétt til þess að flytja tvær ræður við þessa umræðu. Þetta hefur einu sinni gerst áður hvað mig varðar. Þá var hið sama upp á teningnum og nú. Ég var að beina orðum til hæstv. ráðherra, fékk ekki svör og vildi nýta mér annan ræðutíma til þess að ítreka spurningu mína vegna þess að ég vildi ekki að hæstv. ráðherrar kæmust upp með það að virða mig að vettugi. Þetta er ástæðan fyrir því að ég tel þessa venju og þessa þinghefð arfavitlausa og sætti mig ekki við hana og krefst þess að farið sé að þingskapalögum en menn skjóti sér ekki á bak við einhverjar hefðir sem hér hafa skapast á alröngum forsendum að mínu mati.

Þegar ég bað um orðið var enginn á mælendaskrá og mér þótti fyrirsjáanlegt að spurningum mínum yrði ekki svarað. Þess vegna óskaði ég eftir því að fá orðið að nýju. Síðan hefur hæstv. iðnaðarráðherra beðið um orðið og svaraði spurningum prýðilega en það var ekki fyrirsjáanlegt frá mínum bæjardyrum séð þegar ég bað um orðið því að þá var enginn á mælendaskrá. Ég ítreka því mótmæli mín við þessu og ítreka jafnframt það sem ég sagði áður að ég mun að sjálfsögðu taka þetta upp á samráðsvettvangi þingsins.