135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

heilsársvegur yfir Kjöl.

21. mál
[18:21]
Hlusta

Flm. (Kjartan Ólafsson) (S):

Herra forseti. Ég vil fyrst fá að endurtaka örlítinn upplestur, með leyfi forseta, varðandi einmitt tillöguna sjálfa. Mér þykir hafa gætt misskilnings meðal hv. þingmanna sem hér hafa komið upp og tjáð aðra skoðun en ég hef á þessu máli. Það er afar mikilvægt að menn átti sig á því að hér er ályktað um „að fela ríkisstjórninni að kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja heilsársveg yfir Kjöl“. Það er fyrsta setningin, að kanna þjóðhagslega hagkvæmni.

„Jafnframt verði gerð forkönnun á umhverfisáhrifum,“ segir síðan. Umhverfisáhrifin eru svo sannarlega inni í þessari tillögu, hvort sem það heitir víðerni, hálendi. Þá er rætt um að kanna „… samfélagsleg áhrif framkvæmdarinnar, m.a. á atvinnustarfsemi og byggðir landsins“. Þetta er megininntak tillögunnar, að ríkisstjórnin skili Alþingi 1. apríl á næsta ári einhverri niðurstöðu um þetta.

Ég legg ekki fram samgönguáætlun eða frumvarp um lög um að þetta skuli gera heldur skuli ríkisstjórn kanna þessa tilteknu þætti, sem fjalla bæði um umhverfisþáttinn í víðum skilningi, um samfélagsáhrif, hversu arðbært þetta yrði og hvaða áhrif vegurinn hefði á byggðir landsins. Ég er sannfærður um að hann hefði jákvæð áhrif á þau svæði sem þetta kemur mest við, þ.e. Suðurlandið og Norðurlandið, Eyjafjörð, Skagafjörð og Húnavatnssýslur.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir kom inn á að það hefði komið fram í vor er leið þegar ríkisstjórnin var mynduð að tveir hæstv. ráðherrar hefðu tjáð sig um þetta mál. En þeir hæstv. ráðherrar hafa ekki tjáð sig um að þessi könnun verði gerð. Ég trúi því ekki að þeir hæstv. ráðherrar séu á móti því að þessi könnun verði gerð. Við mundum fela samgöngunefnd að vinna málið og síðan yrði því vísað til ríkisstjórnar. Ég trúi hreinlega ekki að þeir hæstv. ráðherrar verði á móti því að þessi könnun eigi sér stað. Það væri bara blindingsleikur að hafna því að hlutir séu kannaðir.

Ég vil árétta að þetta væri gríðarlega mikil byggða- og samgöngubót fyrir Norður- og Suðurland og ég vil jafnframt nefna að við höfum nokkra hálendisvegi í dag. Við erum með veginn um Möðrudalsöræfi og vegi á heiðum, bæði á Austurlandi og Norðurlandi. Sjálfur keyri ég Hellisheiði á Suðurlandi sem er kannski ekki miðhálendið en það er hálendisvegur. Það er heiði yfir að fara og ég sé ljós og gufu í allar áttir og mikið að gerast á þeirri heiði, því mikla víðerni sem þar er. Það hefði mátt segja sem svo að nær hefði verið að hafa engar framkvæmdir á því ágæta svæði sem Hellisheiðin er. Við þurfum að skoða þetta svolítið heildrænt.

Hér var búinn til hringvegur á sínum tíma um Skeiðarársand, opnaður hringvegur 1 allt í kringum landið. Hefðu þeir þingmenn sem hér eru á móti að bæta veg sem er í raun opinn, það er vegur og ferðamannastraumur á Kili í dag? Það var hins vegar enginn vegur á Skeiðarársandi eða þar yfir, þar fóru nánast aðeins einhverjir vatnadrekar, ríðandi menn sem fóru Skeiðarársand og vötnin þar. Þar hreyfði enginn mótmælum gegn því að þar yrði brúað og gerður heilsársvegur með suðurströndinni frá Kirkjubæjarklaustri, um Öræfin og áfram á Hornafjörð. Þetta þykir sjálfsagt og það er enginn sem talar um að vegurinn eigi ekki að vera þar.

Sama gildir um svæði sem eru þjóðgarðar, þar mætti t.d. nefna Þingvelli. Það er ekki malarvegur á Þingvöllum af því að það megi ekki malbika þar, þar er byggður upp vegur og lagður snyrtilegur vegur þar. Skaftafell, sama gildir þar þegar hringvegurinn kom. Þar er malbikaður vegur að Skaftafelli og enginn finnur að því þótt malbikað sé í okkar þjóðgörðum, það er bara eðlilegt og sjálfsagt. Sama gildir um Snæfellsnesið. Ég held að þetta sé fælni sem við þurfum að ná að yfirstíga.

Hv. þm. Jón Bjarnason talar um forgangsröðun og jafnframt um að margir malarvegir séu til sveita, sem er alveg hárrétt. Ég er sammála hv. þm. Jóni Bjarnasyni um að auka þyrfti fjármuni til slíkra vega. En þarna er verið að taka tiltekna leið og rætt um að meta arðsemi hennar, sem ég tel mjög háa. Reyndar hefur það komið fram að í arðsemisúttekt Háskólans á Akureyri er arðsemin af þessari framkvæmd metin upp á 5,6–6 milljarða kr. Þar eru nefnd mörg atriði en það er mikil skýrsla sem of langt mál væri að fara yfir hér. Ég bendi á það í greinargerð minni að þau gögn sem Háskólinn á Akureyri hefur þegar unnið nýtist því starfi sem þarna um ræðir.

Þess má og geta að það er möguleiki í hverri framkvæmd sem þessari og öðrum á að fara fram hjá samgönguáætlun eða þeim fjármunum sem eru á samgönguáætlun með því að fjármagna þetta með öðrum hætti, fara þá leið að þar yrði um gjaldtöku að ræða svipað og gert er í Hvalfjarðargöngunum. Við þurfum ekki að segja sem svo að ef þessi samgöngubót yrði þá væri tekið frá öðrum framkvæmdum í landinu. Ég tel að svo sé alls ekki.

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir fór nokkrum orðum um þessa þingsályktunartillögu og ég hef svarað henni að hluta til. Ég held að við þurfum, rétt eins og komið hefur fram hjá öðrum þingmönnum, að fara aðeins yfir skipulagið. Hvernig ætlum við að hafa aðkomu útlendinga að hálendinu? Viljum við hreinlega loka Kili? Viljum við loka augunum og segja: Þarna má enginn fara? Þar er vegur. Hann er holóttur, hlykkjóttur, ekki með neinum ofaníburði, þar er aur og óþrif á þessum vegi. Hvar í Evrópu sjáum við ferðamannaleiðir að fallegum stöðum með vegtengingar af því tagi sem eru á Kili? Menn mundu bara halda að þeir væru komnir til Afríku, sem fara þessa leið, útlendingar.

Það er fullkomlega eðlilegt að huga að því, ef vegurinn yrði uppbyggður þarna á milli, að hópar sem koma með skemmtiferðaskipum sem ýmist koma að Suðurlandi í Faxaflóahafnir eða í Eyjafjörðinn, að þeir hópar færu aðra hvora leiðina í rútum, annaðhvort suður eða norður Kjalveg og mundu njóta þess að keyra á milli jökla, sjá virkileg öræfi. Skipin færu svo síðan norður fyrir eða suður fyrir hvort heldur ætti við. Þannig mundu farþegar þessara skemmtiferðaskipa njóta þess að sjá hálendið. Ég er sannfærður um að engum ferðaþjónustuaðila dettur í hug að fara með fólk þá leið sem nú er, þar sem menn hoppa og hristast á veginum og sjá ekki út um gluggana fyrir óþrifnaði.

Við þurfum að átta okkur á því hvernig við ætlum að markaðssetja Ísland. Þeir sem tala mest á móti virkjunum segja að við eigum bara að sýna hálendið. Það verða ekki allir ferðamenn fótgangandi á Íslandi, fólk vill fá að njóta þess nákvæmlega eins og við gerum það með miklu stolti að fara með útlendinga, þá gesti sem sækja landið heim, akandi um Þingvelli og þjóðgarðinn þar. Það er auðvitað á góðum og eðlilegum vegum samkvæmt nútímakröfum.

Ég held að við þurfum að skoða þetta og, eins og þingsályktunartillagan sjálf segir til um, að það sé fullkomlega eðlilegt að skoða málið út frá öllum hliðum, bæði umhverfisþáttum og samfélagsþáttum í víðum skilningi. Þá skulum við sjá hver niðurstaðan verður. Það kann vel að vera að við verðum ekki sammála niðurstöðunni. En það hlýtur að vera skárra að sjá niðurstöðuna þegar málið hefur verið skoðað. Við verðum bara að taka því þegar þar að kemur.