135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:30]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt varðandi vinnubrögð fjárlaganefndar. Og þó að það hafi verið þarft verk að velta fyrir sér mörgum þeim litlu fjárveitingum sem við vorum að vinna í að hausti og áttum mjög gott samstarf um, ég og hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson og aðrir fjárlaganefndarmenn, þá breytir það ekki því að við höfum þó haft tíma til þess að kynna okkur til nokkurrar hlítar ráðleggingar hagfræðinga varðandi ríkisfjármálin og þær ráðleggingar eru allar á einn veg.

Raunar er það svo að meira að segja í þessari bók sem gefin er út af fjármálaráðuneytinu og er grundvallaráróðursrit fyrir þeim fjárlögum sem nú liggja frammi, að þegar maður les þar milli línanna þá er alveg ljóst að hagfræðingar þeir sem þar halda á penna þeir sjá hlutina eins. Þeir sjá váboðana í því sem allir sjá, það er alveg sama hvar er borið niður.

Það að bæta við fleiri ráðgjöfum til að segja okkur þetta, það er eins og að kalla á enn einn ráðgjafann handa þeim sem eru ákveðnir í að hætta sér í voðann. Hafi menn ákveðið að fara á fyllerí þá gera þeir það hvað sem sagt er. Það er það sem er að gerast hér, að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að … (Gripið fram í: … skiptir aðgengi að þessum málum?) Aðgengi að góðum upplýsingum skiptir vissulega máli. Það er alveg rétt. En það skiptir samt höfuðmáli að menn hafi vilja til þess að hafa hér sterka og trausta hagstjórn.

Það höfðum við í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það höfum við ekki nú. Það er það sem er alvarlegt áhyggjuefni að það er enginn vilji til þess að hafa hér góða hagstjórn og sést kannski best af þeirri ræðu sem hér var flutt af hv. þm. Ármanni Ólafssyni þar sem hann beinlínis upplýsti að þenslan í fjárlögunum (Forseti hringir.) væri vegna þess að kannski kæmi kreppa og svo ætti bara að hætta við að standa við fjárlögin ef kreppan léti á sér standa. Ég tel þetta ekki mjög virðingarverða eða merkilega hagstjórn.