135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir svör hans hér og málefnalega framsetningu. Ég get bara sagt að ég er ánægður með það sem hann segir og að hann svarar þeim atriðum sem ég spurði um sérstaklega úr nefndaráliti samgöngunefndar, þ.e. um hafnamannvirkin, Fjarskiptasjóðinn og Vegagerðina. Hann upplýsir það hér að það séu atriði sem verði skoðuð sérstaklega á milli 2. og 3. umr. Ég get bara sagt að það mun ekki vefjast fyrir okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að eiga gott samstarf við stjórnarliða um þessi mál. Við viljum gjarnan koma að þeirri umræðu.

Varðandi vinnubrögðin og tillögur okkar, þegar það er sagt að þær hefðu gjarnan mátt koma fram fyrr þá kann svo vissulega að vera. En þá þurfum við að ná samstöðu um að breyta vinnulagi. Ég hefði helst séð það fyrir mér að þingið kæmi saman fyrr, að fjárlagafrumvarpið kæmi fyrr fram. Við þekkjum það því ég gat um það sérstaklega hvernig vinnan að fjárhagsáætlun sveitarfélaga fer fram, í raun og veru líka í fagnefndum. Að minnsta kosti er það mín reynsla úr Reykjavík. Þannig að það eru miklu fleiri sem koma að henni þó að einn aðili, bæjarráð eða borgarráð hafi yfirumsjón með vinnunni og fjárlaganefndin gæti virkað þannig. En ég tel að fagnefndir gætu kannski fengið virkara hlutverk á fyrri stigum í vinnu við einstaka þætti. Ef það er eitthvað í þá veru sem hv. formaður fjárlaganefndar er að ýja að þá fagna ég því sérstaklega. Ég held eins og ég segi, að við getum orðið nokkuð sammála um það.

Ég vil líka þakka honum fyrir að hafa upplýst að hann hafi hlýtt á ræðu mína. Það er rétt að við áttum stutt orðaskipti um það hér í nótt og ég lagði á það áherslu að að minnsta kosti annaðhvort formaður eða varaformaður fjárlaganefndar yrðu viðstaddir og hlustuðu á ræðuna. Mér þykir vænt um að þeir hafi gert það og ég vona að þeir hafi tekið eftir því að hún var, ég vil nú segja, svona að mestu leyti uppbyggileg og málefnaleg þó maður geti nú aldrei látið (KÞJ: Ekki að öllu leyti.) hjá líða að fara aðeins út af sporinu þegar hér gerist sem galsasamast.