135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjarskipti.

305. mál
[22:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Hæstv. forseti. Ekki er mikið um þetta mál að segja þegar það er lagt fram við 1. umr. Gert er ráð fyrir því að verið sé að auka framlögin í jöfnunarsjóð alþjónustu og miðað við þær upplýsingar sem fram koma í greinargerð eða athugasemd við frumvarpið eru færð þau rök fyrir þeirri breytingu, að jöfnunargjaldið verði 0,65% í staðinn fyrir 0,12%, að skuldbindingar sjóðsins hafi aukist og því sé nauðsynlegt að hækka þetta gjald. Í sjálfu sér er ekki mikið um það að segja nema þá það að auðvitað vekur þetta almennt upp spurningarnar um þessa alþjónustukvöð, hvort hún er eðlileg, hvort hún stenst tímans tönn, hvort hún kunni að vera úrelt og hvernig það mál stendur. Mér finnst eðlilegt að það sem slíkt fái þá eðlilega umfjöllun í nefndinni sem tekur þetta mál til umfjöllunar og mun að sjálfsögðu leggja mitt af mörkum til þess að það mál fái ítarlega skoðun um leið og við skoðum þetta ákvæði þessa frumvarps sérstaklega.