135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[01:44]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist vegna þeirra orða sem hér féllu áðan þess efnis að fjárlaganefnd hafi gengið bak orða sinna gagnvart öðrum nefndum þingsins, menntamálanefnd í þessu tilviki, en hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir lét liggja að því að það væri jafnvel gert gagnvart fleiri nefndum.

Það eru stór orð að nefndin hafi gengið bak orða sinna. Ég sem fjárlaganefndarmaður kannast ekki við að gefin hafi verið bindandi loforð, að gefin hafi verið formleg loforð fyrir því að fjárlaganefnd fjallaði ekki um þá liði sem hér um ræðir. Ég vil taka hér upp hanskann fyrir hv. formann og hv. varaformann nefndarinnar sem ég tel að hafi unnið af mikilli samviskusemi og mikilli sanngirni gagnvart þessum litlu liðum og ekki hafi verið neitt óeðlilegt við það að þar væri hróflað við ákveðnum liðum, enda er þetta hið lögboðna hlutverk fjárlaganefndar. Þar með er ekki sagt að hún skuli ekki leita samstarfs við aðrar nefndir þingsins en það er æskilegt að það samstarf sé á jákvæðari nótum en ég heyri af orðum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, því að það eru stór orð í mínum huga að segja að einhver gangi bak orða sinna.

Sjálfur átti ég þátt í því að vekja umræðu innan fjárlaganefndar um liði sem komu frá menntamálanefnd með, að ég taldi, of lágum eða jafnvel engum fjárframlögum og gerði þar tillögu um að úr væri bætt og varð því mjög feginn að svo var gert. Ég taldi mig ekki vera að brjóta neitt samkomulag með þeirri málafylgju, enda var slíkt samkomulag aldrei rætt innan nefndarinnar svo ég viti til og missti ég þó ekki marga fundi úr. (Forseti hringir.) Ég tel að þingmönnum beri að gæta orða sinna þegar notuð eru orð sem þessi.