135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[17:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt að vindorkan hefur þennan ágalla. Mér þykja þetta ekkert sérstaklega falleg mannvirki. En það má taka þau niður ef mönnum sýnist svo. Þetta er afturkræf uppbygging og það má velja þessu afskekkta staði kannski þar sem lítið ber á og svo framvegis og við höfum mikla möguleika til þess í okkar stóra og vindasama landi. Ég er mér vel meðvitaður um að af þessu er sjónmengun og auðvitað hávaðamengun líka og þetta er lýti í nærlandslagi manna sem er tilfinningalegt í þéttbýlum löndum og það veldur þeirri miklu umræðu til dæmis sem er í Danmörku þar sem menn eru núna farnir að tala um að gera þetta fyrst og fremst úti í sjó og byggja vindmyllugarða á hafi úti eða undan ströndum.

Frægasta tilraun hér með vindmyllur er væntanlega hin mikla vindmylla í Grímsey sem voru gerðar allmiklar tilraunir með og tókust nú svona og svona. (Iðnrh.: Er hún ekki enn þá til?) Það var ein hugmyndin að leysa vandamál einangraðra orkumarkaða eða orkusvæða eins og kannski Grímseyjar með slíku og er væntanlega vel tæknilega mögulegt og eins og þróun er í orkuverðsmálum og ég tala nú ekki um eins og olíuverð er að þróast þá má nefna slíka hluti. Það er eftir miklu að slægjast ef menn geta leyst orkuþörf til dæmis einangraðra byggða eins og Grímseyjar með öðrum hætti en þeim að keyra þar dísilrafstöð.

Varðandi Búðarhálsvirkjun er það bara þannig að ég hef margnefnt þá virkjun á undanförnum árum sem miklu heppilegri virkjunarkost en að rjúka til á óröskuðum svæðum af því að hún er inni á miðju framkvæmdasvæðinu í efri hluta Þjórsár á milli Sultartangalóns og Hrauneyjarfossvirkjunar. Ég held að flestir séu sæmilega sáttir við að það breyti litlu úr því sem komið er á því svæði og þau umhverfisáhrif séu vel ásættanleg borið saman við mjög margt annað. Ég svara því bara játandi. Ég mundi fagna því glaður ef menn hyrfu frá öllum hugmyndum um virkjanir í neðsta hluta Þjórsár og liður í því í staðinn væri þá Búðarhálsvirkjun sem hvorki gerði ráð (Forseti hringir.) fyrir vatni úr Langasjó né úr Þjórsárverum.