135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

ferjubryggjan í Flatey.

416. mál
[15:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Bryggjan í Flatey á Breiðafirði var byggð árið 1948. Þá voru menn fullir bjartsýni og reistu reyndar einnig stórt frystihús við bryggjuna. En það voru fáir fiskar sem rötuðu í húsið og smám saman fækkaði íbúum og það dró úr fólksflutningum til og frá Flatey. Ferjusiglingum með flóabátnum Baldri hefur hins vegar alltaf verið haldið úti reglubundið en Flatey er nú eina eyjan af vestureyjum sem er nú enn í byggð.

Með tilkomu nýrrar ferju árið 2006 kom mikill vaxtarkippur í ferðaþjónustu við Breiðafjörð og hafa fólks- og vöruflutningar á vegum Sæferða við fjörðinn stóraukist. Farþegum fyrsta heila rekstrarárið fjölgaði um 36%, bílum um 51% og þungaflutningum með vörubifreiðum um 90%. Hagur byggðanna norðan og sunnan Breiðafjarðar af þessum auknu siglingum er augljós og Flatey hefur ekki farið varhluta af þessari auknu umferð. Eyjan er nú viðkomustaður fjölmargra og á síðasta ári fóru rúmlega 13.000 farþegar til og frá Flatey en voru 7–9.000 á eldri ferju. Þessir ferðamenn eru auðvitað einkum á ferð á sumrin þegar ferjan fer tvær ferðir daglega á milli Stykkishólms og Brjánslækjar og stoppar því fjórum sinnum í Flatey.

Bryggjan í Flatey hefur nokkrum sinnum verið endurbætt í upphaflegri mynd en langt er þó síðan ljóst var að hún þarfnast gagngerra endurbóta, ekki bara vegna eðlilegs slits heldur líka vegna þess að núverandi ferja, nýi Baldur, er mörgum númerum of stór fyrir þessa bryggju. Þótt áhöfn ferjunnar reyni eftir megni að hlífa bryggjunni telja margir að álagið hafi þegar haft umtalsverð áhrif á styrkleika bryggjunnar sem nötrar og skelfur undan átökum þegar Baldur leggst að.

Í apríl á síðasta ári voru boðin út kaup á bryggjutimbri fyrir Siglingamálastofnun og þar á meðal ríflega 84 tonn af timbri til lengingar á viðlegukanti í Flatey. Heimamenn og rekstraraðilar ferjunnar lögðu mikla áherslu á að verkinu yrði lokið fyrir sumarið 2007 og töldu sig hafa loforð fyrir því. Ekkert varð þó af framkvæmdum og nú styttist í annað sumar, aðra sumarvertíð. Eftir storma vetrarins hefur bryggjan enn látið á sjá og í vondu veðri hefur orðið að fella niður ferðir í Flatey vegna þess að skipstjórnarmenn treysta sér ekki lengur til þess að leggja Baldri þar að.

Bryggjutréð er sem sagt komið til landsins en lítið bólar á öðrum undirbúningi og engin svör hafa fengist við því hvenær verkið á að hefjast og hvað þá hvenær fyrirhuguð verklok eru. Menn óttast hreinlega að bryggjan sé að liðast í sundur. Ég hef af þessu tilefni lagt fjórar spurningar fyrir hæstv. samgönguráðherra um það hvort hann hafi kynnt sér ástand ferjubryggjunnar, hvenær viðgerð á bryggjunni muni hefjast og hvort hugur ráðherra standi til þess að þessum verkum verði lokið fyrir sumar.