135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunar.

[13:58]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki gott að hugsa til þess að í þau fjölmörgu skipti sem ástand fiskstofna hér við land er tekið til umræðu á hv. Alþingi er það gert undir formerkjum veiðiþols. Það er að vísu vel skiljanlegt að ýmsu leyti því að það má ekki að vanmeta mikilvægi veiða fyrir íslenskan efnahag og þjóðarbúið. Það er hins vegar vert að hafa í huga að þegar til lengdar lætur skiptir annað mun meira máli, þ.e. að lífríkið við Ísland. Ég segi lífríki vegna þess að það er ekki aðeins um fiskstofna að ræða heldur þurfum við að tala um lífkeðjuna við landið. Hún skiptir öllu máli fyrir lífið í landinu til lengri tíma. Það er dapurlegt að vita að ekki skuli meira vera gert í því en raun ber vitni að skoða samhengið í lífkeðjunni. Mín skoðun er sú að við þurfum að efla rannsóknarstarfsemi bæði hjá Hafró og hjá háskólunum sem við þær fást. Ég vil í því samhengi rifja upp að Háskólinn á Hólum hefur afburðaaðstöðu til rannsókna á fiski.

Þeir þingmenn sem hér hafa talað hafa allir nokkuð til síns máls. Sömuleiðis er vel skiljanleg sú afstaða sem birtist í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Hins vegar ætla ég að fara þess á leit við hæstv. sjávarútvegsráðherra að ef hann eykur veiðar á þorski hér við land (Forseti hringir.) verði sú ákvörðun byggð á nýjum rannsóknum Hafrannsóknastofnunar (Forseti hringir.) en ekki kröfum frá sjómönnum.