135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

Gjábakkavegur.

[15:33]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Síðastliðinn fimmtudag var hér til umræðu staða Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO, m.a. í tilefni af því að vatnalíffræðingar víða um heim hafa skorið upp herör gegn fyrirhugaðri lagningu Gjábakkavegar sem þeir telja ógna lífríki Þingvallavatns sem er einstakt á heimsvísu. Ástæðan er sú að í ákvörðun Vegagerðarinnar um legu vegarins var ekki tekið tillit til alvarlegra athugasemda, m.a. frá Pétri M. Jónassyni, prófessor í vatnalíffræði, en hann er sá maður sem hvað gerst þekkir lífríki vatnsins og vatnsbúskapinn. Pétur hefur bent á að með auknum hraða og aukinni umferð geti niturmengun í Þingvallavatni aukist og það þannig breyst úr blátæru fjallavatni yfir í lognmollulegan þörungapoll.

Nú hefur Pétur M. Jónasson stefnt Vegagerðinni, sem er stofnun á vegum samgönguráðuneytisins, þannig að nú stefnir í málaferli, en athugasemdir Péturs hafa fengið stuðning m.a. frá heimsminjanefnd UNESCO í París, frá vatnalíffræðingum víða um heim og frá Umhverfisstofnun. Við umræðuna á fimmtudaginn benti hæstv. menntamálaráðherra á þann möguleika að hæstv. samgönguráðherra gæti leyst málið með því að hafa forgöngu um fund með þingmönnum kjördæmisins til að reyna að finna aðra lausn sem ekki ógnar lífríki vatnsins.

Ég vil því spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann í ljósi varúðarreglu umhverfisrétttar muni beita sér fyrir fundi með þingmönnum kjördæmisins í samræmi við þau tilmæli hæstv. menntamálaráðherra sem við heyrðum hér á fimmtudaginn var eða hvort hann hyggst taka til varna í málinu sem Pétur M. Jónasson hefur höfðað gegn Vegagerðinni vegna lagningar Gjábakkavegar.