135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[14:43]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þá skýrslu sem hér er lögð fram og hún hefur fylgt eftir. Það má segja að það hafi verið visst einkenni á umræðunni um utanríkismál á síðastliðnum árum að við höfum á fremur skömmum tíma staðið frammi fyrir tiltölulega mörgum stórum ákvörðunum. Þannig er það hárrétt sem kemur fram í skýrslunni til að mynda og margoft hefur verið rætt á þinginu að auðvitað var það stórverkefni fyrir okkur Íslendinga að taka yfir fulla ábyrgð á eigin öryggi og vörnum, það var stórverkefni. En það verkefni hefur almennt tekist vel og ástæða þess er ekki síst sú að við höfum í fyrsta lagi skýra stefnu en við höfum líka fólk og þekkingu til að takast á við slík verkefni. Við höfum líka alþjóðleg tengsl sem nauðsynleg eru til að tryggja að slíkt verkefni gangi fumlaust og af öryggi eftir.

Það sama má segja um ýmis önnur stór verkefni sem ráðist hefur verið í á sviði utanríkismála undanfarin ár sem sum hver verða leidd til lykta innan skamms tíma eins og til að mynda framboðið til öryggisráðsins eða önnur sem munu vera viðvarandi verkefni utanríkisþjónustunnar. Það er auðvitað athyglisvert að það ástand sem núna er á alþjóðlegum fjármálamörkuðum skuli óbeint rata inn í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál vegna þess að það er auðvitað hárrétt að utanríkisþjónustan og stjórnmálatengslin sem við höfum ryðja oft brautina, skapa skilyrði fyrir frjáls viðskipti og atvinnulífið fylgir eftir. Þegar það er komið á vettvang geta síðan komið upp ýmis verkefni og vandamál sem aftur kalla á það að utanríkisþjónustan komi aftur að málum. Það er á vissan hátt það sem er verið að kalla eftir í dag og ekki bara að utanríkisþjónustan heldur að ríkisstjórnin öll taki þátt í því verkefni, þ.e. að kynna stöðuna á Íslandi fyrir umheiminum. Það er hárrétt sem fram kemur í skýrslunni að það eru auðvitað nýir tímar þar sem ein lítil frétt, einn lítill atburður sem gerist á þessu litla landi norður í höfum er komin heiminn á enda á örskotsstundu. Allt þetta hefur áhrif á verkefni sem rekin eru í utanríkisþjónustunni og ég verð að segja að mér finnst okkur almennt séð takast vel til að gæta okkar hagsmuna á því sviði.

Það má líka taka til umfjöllunar og hefur auðvitað verið gert í máli hæstv. ráðherra, framboð Íslands til öryggisráðsins sem er eitt af þeim verkefnum sem brátt fæst niðurstaða í. Þar er auðvitað á ferðinni verkefni sem sýnir að við höfum metnað og erum tilbúin til að axla mikla ábyrgð og framboðið hefur líka sýnt að við höfum erindi. Það er ánægjulegt að sjá það sem ég hafði allan tímann trú á frá því að framboðsbarátta okkar eða barátta okkar til setu í öryggisráðinu hófst, að í slíku framboði felast fjölmörg tækifæri til að efla tengsl og þau tengsl munu nýtast bæði í stjórnmálalegu samhengi en ekki síður í viðskiptalegu samhengi þegar fram líða stundir. Þetta eru ánægjuleg hliðaráhrif á því að vera virkur þátttakandi í alþjóðamálum með framboði af þessum toga þó að auðvitað sé framboðið sjálft og niðurstaðan sem fæst úr framboðsbaráttunni aðalmálið.

Það er líka ánægjulegt í sambandi við framboð til öryggisráðsins að lítil þjóð eins og Ísland getur tekið fullan þátt í því án þess að það verði okkur ofvaxið hvað kostnað snertir. Ég hef áður látið þau orð falla að mér finnst að farið hafi verið fram af skynsemi í framboðsmálum til öryggisráðsins bæði hvað áherslur snertir en ekki síður hvað kostnaðinn snertir. Það er auðvelt að missa kostnað við slíkt stórverkefni upp í marga milljarða sem ef til vill eru ekki stórar tölur fyrir aðra sem eru að sækjast eftir sætinu en eru vissulega stórar tölur fyrir okkur. Ég fagna því yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra um að við ætlum ekki að missa okkur á lokasprettinum hvað kostnaðinn snertir.

Það er auðvitað yfir mjög stórt svið að fara þegar þessi skýrsla er tekin til umfjöllunar og þegar hér er komið sögu vil ég þakka fyrir hversu ítarleg skýrslan er og hversu umfangsmikið og gott yfirlit hún veitir inn í alla afkima þeirra verkefna sem unnið er að á vettvangi ráðuneytisins, reyndar fyrir utan Evrópumál sem við höfum tekið sérstaklega til umfjöllunar eftir skýrslu utanríkisráðherra um þau í janúar.

Ég vil staldra við örfá atriði á þeim tíma sem ég hef til ráðstöfunar til að fara yfir efni skýrslunnar og ég vil byrja á því að fjalla um viðskiptamálin. Í vikunni komu nokkrir þingmenn sem eru í þingmannanefnd EFTA til baka úr heimsókn til Indlands en brátt hefjast viðræður við Indverja á vettvangi EFTA um gerð fríverslunarsamnings. Það kom fram í þessari ferð þingmannanna til Indlands að Indverjar trúa því að hægt sé að hefja viðræðurnar á næstu 60 dögum. Ég tel að samningurinn við Kanada sem náðist á síðasta ári og við verðum með til umfjöllunar síðar á dagskránni í dag á þinginu og mögulegur samningur við Indland geti falið í sér stórkostlega hagsmuni fyrir íslenskt viðskiptalíf. Það er til að mynda komin full fríverslun með iðnaðarvörur eftir að fríverslunarsamningurinn við Kanada komst á en það liggur í hlutarins eðli að smáríki eins og Ísland með 300 þúsund íbúa hefur auðvitað af því alveg gríðarlega hagsmuni að eiga opinn aðgang að jafnstórum mörkuðum og Indland er og kemur til með að verða í framtíðinni. Sama gildir um Kanada og við höfum sömu reynslu af öðrum fríverslunarsamningum sem gerðir hafa verið á þessum vettvangi.

Þetta gildir einnig um tvíhliða viðræður okkar við Kínverja. Þar geta auðvitað leynst gríðarlega mikil tækifæri og að við skulum hafa náð þeim árangri að geta hafið tvíhliða viðræður við Kínverja, að þeir skuli hafa talið það vera virði þess tíma sem í þær viðræður fer að eiga slíkar viðræður við 300 þúsund manna þjóð er kannski bara enn eitt atriði sem er til vitnis um það að við getum og við eigum erindi og við eigum að vera vakandi fyrir öllum tækifærum sem bjóðast í alþjóðasamfélaginu. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni ganga þær viðræður ágætlega og næsta lota í viðræðunum verður síðar í þessum mánuði. Vonandi ganga þær viðræður áfram á jákvæðum nótum og fæst niðurstaða í þær innan tíðar. En samandregið vil ég fagna þeirri virkni sem er á vettvangi utanríkisráðuneytisins í þessu efni og vek athygli á mikilvægi aðildar okkar að EFTA í þessu tilliti vegna þess að um leið og Doha-viðræðurnar hafa strandað, lent á skeri, og Evrópusambandið hefur þurft í auknum mæli að eyða kröftum sínum í stækkunina því fleiri ríki innan Evrópusambandsins þýða fleiri hagsmuni sem þarf að tala tillit til sem aftur hefur leitt til þess að Evrópusambandið hefur verið aðeins hægara í öllum hreyfingum þegar kemur að gerð svona samninga, þá hefur allt þetta leitt til þess að tvíhliða fríverslunarsamningar og fríverslunarsamningar við EFTA hafa að nýju fengið líf og við eigum að nýta það tækifæri eins og best er kostur.

Ég vil jafnframt koma aðeins inn á þróunarmálin. Það eru auðvitað fyrst og fremst einkenni á þeim málaflokki hjá okkur Íslendingum að við höfum verið að stórauka framlögin. Það er fagnaðarefni að þau metnaðarfullu markmið sem við settum okkur á því sviði eru að ganga eftir. Við erum að stefna inn í það að vera með 0,35% af vergri þjóðarframleiðslu sem framlög okkar til þess málaflokks á næsta ári. Það var markmiðið og það hefur verið mikilvægt að þeirri stefnu hafi verið fylgt þétt eftir, ekki síst í tengslum við framboð okkar til öryggisráðsins að við værum ella að fórna því að vera tekin alvarlega á alþjóðlegum vettvangi ef við gætum ekki staðið við þau fyrirheit sem við gáfum í því efni.

Ég vil hins vegar viðra aðeins þá skoðun mína að slíkri ákvörðun fylgir auðvitað að við þurfum að leggjast mjög gaumgæfilega yfir hvernig við ætlum að ráðstafa þeim auknu fjármunum sem við höfum þá úr að spila. Ég sakna þess dálítið að við á þinginu tökum ekki meiri umræðu um það atriði og eflaust fáum við tækifæri til að gera það betur í utanríkismálanefnd en það er ljóst að það aukna svigrúm sem við höfum skapað okkur á þessu sviði hefur í fyrsta lagi verið nýtt til að fylgja eftir þeim þróunarverkefnum sem við áður höfum ákveðið að taka þátt í en að mínu áliti höfum við ráðist í fullmörg ný verkefni þar sem við höfum oft á tíðum verið að leggja tiltölulega lágar fjárhæðir í einstök verkefni til að vera með sem víðast. Þarna er spurningin sú hvort við eigum að einbeita okkur að verkefnum þar sem því sem við höfum úr að spila verður þá veitt í færri en stærri framlög á hverjum stað þannig að meiru verði áorkað í hverju verkefni fyrir sig. Þetta er að mínu áliti ein af þeim spurningum sem við stöndum frammi fyrir á þessu sviði fyrir utan það að ég tel að þingið þurfi að fylgja þessum verkefnum betur eftir með virkari eftirfylgni. Nýtt frumvarp um þetta efni gefur auðvitað tækifæri til þess fyrir þingið að vera virkara í eftirlitshlutverki sínu og sú umræða kemur þá til með að fara fram í tengslum við það frumvarp. Að öðru leyti tel ég til að mynda mikilvægt að þingmenn ættu oftar kost á því að fara á vettvang og fylgjast með þeim verkefnum sem við erum að vinna að. Við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fórum einmitt til Níkaragva í janúar, reyndar á vegum Sameinuðu þjóðanna, en við nýttum þá ferð til að fylgjast með því sem gert er á vegum utanríkisráðuneytisins í þróunaraðstoð á því svæði og það var mikið gagn að þeirri heimsókn og augljóst að við höfum þar af miklu að miðla ekki síst einfaldlega þekkingu á nýtingu náttúruauðlinda og það á við mjög víða. Það eru ekki bara peningar sem þarf að senda til útlanda heldur þarf að miðla þekkingu og aðstoða við að byggja upp skipulag.

Mig langar til að koma aðeins inn á eitt atriði sem minnst er á í skýrslunni sem varðar borgaralegu þjónustuna en í skýrslunni er fjallað um að það sé til skoðunar að efla getu ráðuneytanna til að gefa út Schengen-vegabréfsáritanir og ég held að það sé mjög mikilvægt. Eins og ég gat um í upphafi máls míns voru nokkrir þingmenn á vegum EFTA-þingmannanefndarinnar á Indlandi nýverið og það er hálffáránlegt að þeir sem þurfa að sækja Schengen-vegabréfsáritun til Íslands þurfi að fara á næstu hæð fyrir neðan sendiráð Íslands, til danska sendiráðsins til að fá Schengen-vegabréfsáritun en geti einfaldlega ekki fengið afgreiðsluna á hæðinni fyrir ofan þar sem við höfum komið okkur fyrir í sama húsi. Þar fyrir utan reynir oft á að það þurfi að fá skjótari afgreiðslu. Hið sama á við um Rússland og ég fagna því sem segir í skýrslunni að unnið sé að því að búa íslensku sendiráðin þannig út að þau geti afgreitt þessi mál. Þetta er bara lítið dæmi um þann borgaralega þátt sem skiptir máli að sé í lagi, ekki síst þegar við höfum lagt í þá fjárfestingu að opna sendiráðið og koma okkur fyrir. Eins og málin eru að þróast í heiminum þá hefur þetta verið skynsamleg stefna hjá okkur og ég sannfærðist enn betur um það eftir að hafa komið í sendiráð Íslands á Indlandi nú í síðustu viku, að við höfum verið að koma okkur fyrir á réttum stöðum í Asíu eins og í Kína og á Indlandi þar sem deiglan er, þar sem málin eru að þróast með hvað hröðustum hætti og viðskiptatækifærin koma til með að vera í framtíðinni.

Rétt í lokin ætla ég að fara örfáum orðum um ímyndarmálin. Ég held að atburðir síðastliðinna vikna sýni að við þurfum að vera á stöðugu varðbergi hvað ímynd landsins varðar og hafa alltaf á takteinum réttu leiðina til að koma að okkar áherslum um það fyrir hvað við stöndum, hvað við erum og hvað við getum. Ég fagna niðurstöðunni sem fékkst á tiltölulega skömmum tíma frá nefndinni og þeim áherslum sem þar eru lagðar og ég tel að það sé mjög mikilvægt að við hrindum þeim í framkvæmd hið fyrsta.

Nú hef ég ekki einu sinni komist að til að fjalla almennilega um öryggis- og varnarmálin en ég geri það ef til vill síðar í dag.