135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:24]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurningin um Tíbet, ég get ekki svarað henni á fullnægjandi hátt. Þegar við notum hugtök eins og frelsi og mannréttindi ber að minnast þess að þau hugtök eru með breytilegum skilgreiningum. Ef maður lítur yfir tímabil og ef maður lítur yfir heiminn allan þá held ég að skilgreiningin á mannréttindum og frelsi sé ekki einsleit.

Þegar við tölum um mannréttindi og frelsi á svæðum þar sem við þekkjum ekki til — ég þekki ekki nógu vel til sögu Tíbets eða Kína og þeirra samskipta, til að vita nákvæmlega hver málstaður Dalai Lama og Tíbetbúa gagnvart Kínverjum er. Ég þekki það ekki nógu vel til þess að svara hv. þingmanni og fyrirspyrjanda. En ég minni á að við þurfum að hafa í huga að frelsi og mannréttindi eru hugtök sem þróast. Við erum fylgjandi þessum hugtökum eins og við skilgreinum þau í vestrænum heimi í dag og ég er viss um að Kínverjar eiga margt eftir ólært ef þeir vilja fylgja í fótspor okkar.

Bæði í Rússlandi og Kína virðist mér að hugtökin mannréttindi og frelsi séu skilgreind á annan hátt en ég alla vega skil þau á minn íslenska hátt.