135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:59]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég styð íslenskan sjávarútveg og ég styð íslenskt alþýðufólk sem hefur lifað á íslenskum sjávarútvegi í gegnum tíðina. Það er sorglegt að vita til þess að á Alþingi sitja allt of fáir sem hafa dýft hendinni í kalt vatn eða migið í saltan sjó. Það eru allt of fáir sem vita út á hvað lífið gengur í sjávarbyggðum landsins og er kannski ágætur þingmaður, Sigurður Kári Kristjánsson, dæmi um mann sem aldrei hefur migið í saltan sjó og veit ekkert um hvað lífið snýst í sjávarbyggðum, og hefur jafnvel verið meira og minna á vernduðum vinnustað alla sína ævi frá því að hann byrjaði að vinna.

Að vitna í Þorstein Pálsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sem var einn almesti varðhundur kvótakerfisins og leiddi af sér einhverjar mestu hörmungar inn í íslenskan sjávarútveg til margra ára er náttúrlega alveg með ólíkindum og hroðalegt. Og þar opinberar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson þekkingarleysi sitt þegar hann fer að tala um aflamarkskerfi. Aflamarkskerfi á Íslandi og víða í heiminum eru ekki bundin eignarhaldi í prósentu í hverjum stofni upp á kíló eða gramm. Þar er munurinn. Þegar menn fjalla um mál eins og sjávarútvegsmál er nauðsynlegt að þeir viti um hvað þeir eru að tala, skilji og viti muninn. Mannréttindabrot eru mjög alvarleg. Þess vegna hlýtur það að vera hlutverk Alþingis að koma strax að tillögum eða hugmyndum sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir standa að og auðvitað hljótum við þingmenn og þingnefndir að þurfa að fá að fjalla um þessi mál áður en eitthvað er sent til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.