135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[11:26]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar er verið að leggja til að þeir sem hagnast af því að kaupa og selja hlutabréf og önnur verðbréf séu meðhöndlaðir með allt öðrum hætti en aðrir sem standa í atvinnurekstri á Íslandi í dag. Meginreglan er sú að atvinnurekstur þarf að telja tekjur sínar fram til rekstursreiknings og skatts og greiða af þeim skatta og skyldur.

Hér er verið að festa í sessi þá reglu að þeir sem hagnast af þessari tilteknu starfsemi, kaupum og sölu á hlutabréfum, þurfa ekki að borga skatta. Þessi starfsemi er ekki lítil í íslensku efnahagslífi. Hagnaður af henni, söluhagnaður á árinu 2006 einu, nam 336 milljörðum kr. Það er sá hagnaður sem á að borga skatt af fyrir næstu áramót, taka ákvörðun um meðhöndlun þess. Það eru um 60 milljarðar kr. sem þetta (Forseti hringir.) frumvarp fellir niður af eiginfjárreikningum viðkomandi fyrirtækis sem skuldbindingu og breytir því í eigið fé þeirra.