135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:54]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ósköp er Samfylkingunni brugðið. Er eitthvert óbragð í munninum á mönnum vegna þessa máls? Ég átta mig ekki á þessu geðvonskukasti sem lendir hér á mér, frú forseti. (Gripið fram í.)Já, það er einhver mikill … Frú forseti. Það er einfaldlega þannig að frumvarpið er svo nýlega komið í mínar hendur að ég finn ekki einu sinni greinina um gjaldtökuna. (ÁPÁ: 29. gr.) Já, 29. gr., hér er hún.

Ég vil hins vegar þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að gefa mér tækifæri til að ræða sérstaklega þann efnisþátt þessa máls sem er að finna í 2. tölul. 29. gr. þar sem segir að heimilt sé að taka gjald fyrir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu á göngudeild, dagdeild, slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa sem veitt er án þess að um innlögn á sjúkrahús sé að ræða.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þetta atriði er túlkað. Mér er kunnugt um að menn hafa þurft að gangast undir viðamiklar rannsóknir og dýrar, ég veit um reikning upp á 30 þús. kr., til þess að gangast undir aðgerð á sjúkrahúsi en þessar rannsóknir eru framkvæmdar … (Heilbrrh.: Er þetta andsvar?) Þetta er andsvar um gjaldtökuna, ég er að spyrja hæstv. ráðherra um gjaldtöku og ég var að þakka sérstaklega fyrir að hafa fengið tækifæri til þess. Þessar rannsóknir, sem eru nauðsynleg forsenda (Forseti hringir.) innlagnar á sjúkrahús, gætu verið gerðar með tilvísun (Forseti hringir.) í þessa grein og því vil ég spyrja um túlkunina á henni.