135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:04]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er ekki til að breyta breytinganna vegna heldur vegna þess að breytinga er þörf en eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns varðandi fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar þá hefur hún gengið sér til húðar. Við erum eina landið innan OECD og í Vestur-Evrópu og jafnvel þótt víðar væri leitað þar sem fjármögnun heilbrigðisþjónustu er með þeim hætti sem hún er hjá okkur í dag, þ.e. á föstum fjárlögum þar sem ein summa fer til stofnananna sem tekur mið af þeirri summu sem fór til stofnunarinnar fyrir ári síðan, í besta falli uppreiknað með vísitölu. Með því er það ákvörðun innan hverrar stofnunar hvaða þjónustu á að veita þannig að heilbrigðisyfirvöld hafa í rauninni ekki yfirsýn yfir hvaða þjónustu er verið að veita.

Með kerfi þar sem þjónustan er kostnaðargreind er hins vegar fengin ákveðin yfirsýn, það eru gerðar tilraunir til þess að koma í veg fyrir t.d. oflækningar, það er alveg ljóst hvað er verið að kaupa og kaupin fara eftir mati á þörfum á hverjum tíma. Ég fagna því að hv. þingmaður hefur ekki sett sig alfarið á móti þessu frumvarpi, öðru nær, heldur hefur hún fært ákveðin rök fyrir því að það ætti að ganga fram og ég vona að ég sé ekki að oftúlka orð hv. þingmanns með orðum mínum.

Varðandi útboð sem hv. þingmanni og liðsmönnum hennar innan Vinstri grænna hefur orðið tíðrætt um er það nú svo að útboð hafa tíðkast innan Landspítalans um árabil. Árum saman hafa verið útboð þó að það hafi ekki farið hátt, m.a. um rekstur öldrunardeildar, hvíldarinnlagnir og slíkt. Varðandi deildina sem var opnuð í gær er ljóst að kostnaðurinn er lægri núna en undir rekstri Landspítalans og þar munar u.þ.b. 16 til 18 milljónum á ári, ef ég man rétt. Því til viðbótar er verið að taka við (Forseti hringir.) sjúklingum sem að öðrum kosti hefðu þurft að vera heima hjá sér og jafnvel orðið verri eftir.