135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[20:07]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Að margra áliti, ekki síst skipstjórnarmanna og sjómanna sem hafa lært af reynslunni, sem hafa lært af því að umgangast auðlindina í hafinu áratugum saman, sem þekkja bleyður og boða, dranga og trintur og læra ákveðin ferilskeið fiskanna í sjónum — margir þessir menn hafa þá skoðun að Hafrannsóknastofnun vaði að mörgu leyti í villu og svíma, sé eins og sértrúarsöfnuður sem rottar sig saman innbyrðis og siglir svo út á miðin á árabát en áralausum.

Því miður er líklega allt of mikill sannleikur í þessari nöpru lýsingu því ekki ríður við einteyming sú tortryggni sem ríkir í garð Hafrannsóknastofnunar og að mörgu leyti má finna rök fyrir þeirri tortryggni því það er svo augljóst í mörgum tilvikum að Hafrannsóknastofnun tekur geðþóttaákvarðanir. Það eru ekki góðar niðurstöður þegar stór hluti af afkomu þjóðarinnar byggist á því að skynsamlega sé staðið að verki og menn skyldu aldrei hunsa brjóstvitið og reynsluna.

Við getum ugglaust að einhverju leyti sótt reynslu til erlendra vísindamanna. En við eigum býsna marga snjalla vísindamenn á Íslandi og við eigum fyrst og fremst að nýta reynslu þeirra. Það er alveg rétt sem hv. þm. Illugi Gunnarsson gat um í ræðu sinni áðan að það skiptir öllu máli að tvinna saman þekkingu vísindamanna og skipstjórnarmanna. Það er lykilatriði í okkar framtíðarmúsík í þessum efnum og það hefur verið hunsað allt of lengi. Menn eru að fela sig á bak við það að talað sé við einn, tvo, þrjá skipstjóra í síma eða eitthvað slíkt. En það eru bara engin vinnubrögð. Það eru engin vinnubrögð. Þó að líkan Hafrannsóknastofnunar sé byggt á reynsluþáttum þá er líkan bara líkan, þ.e. líkan sem byggist á mælingu sem er ónákvæm og mikil óvissa ríkir um, því ekki geta mælingar fiskifræðinga tekið nema á hluta þess lífs sem fram fer í hafinu og rúmar magnaða fléttu eða keðju sem er samhengi þess að fiskstofnar og fiskveiðar gangi upp á eðlilegan hátt.

Í fyrsta lagi þurfum við ekki á því að halda að sækja til erlendra vísindamanna. Það er ágætt að leita til þeirra. En við skulum ekki gleyma því að það er mjög mikil samtrygging innan vísindastofnana, ótrúleg samtrygging því þar ætti tortryggnin að vera mest. Þar ætti efinn að vera mestur og þar ættu menn að leita spurninga sem erfitt getur verið að fá svör við. En þetta er bara ekki þannig.

Það var gott dæmi þegar hér á landi í fyrra eða hittiðfyrra var ráðstefna sem tengdist hvalveiðum. Þá komu upplýsingar frá Alþjóðahvalveiðiráðinu og hér var slatti af erlendum vísindamönnum og þeir hlupu allir inn á það á hálftímadæmi að vera sammála íslensku hvalveiðisérfræðingunum. Þó voru þar svo augljósar gloppur að hver einasti leikmaður sem fylgdist með þessu og setti sig eitthvað inn í það sá að þessar yfirlýsingar voru ekki byggðar á rökum. En jú, jú, þeir urðu allir jábræður fyrir kokkteilinn um kvöldið. Þannig er bara fullt af sýndarmennsku í þessu sem er staðreynd og er engin ástæða til að horfa fram hjá. Það er heldur engin ástæða til að gera of mikið úr því. En þetta er verkefni sem þarf að vinna.

Við eigum að sækja í þekkingu vísindamanna okkar, ekki bara þeirra sem eru í trúarbragðahópnum í Hafrannsóknastofnun. Það eru margir aðrir vísindamenn sem eru annarrar skoðunar. Þeir eru ekki spurðir. Það er ekki leitað í þá. Það er ekki vitnað til þeirra. Þeim er bara hent fyrir borð, rugludallar, afgreitt. Þetta er ekki skynsamleg aðferð. Hún elur á tortryggni. Hún elur á fáfengilegheitum í framvindu mála og í framgangi rannsókna af því að rannsóknir eru þess eðlis að það á að taka tillit til allra þátta, fá þá upp á borðið og vinna síðan úr þeim á rökum. Það eina sem er hægt að byggja á í þessum efnum eru rök. Og varðandi hafið sjálft sem er sýnd veiði en ekki gefin, ósýnileg að mörgu leyti, byggir á spádómum þeirra sem eru ofansjávar þá verður að nýta öll færi til þess að skoða öll sjónarmið og brjóta þau til mergjar.

Sá er hér stendur hefur um áratugaskeið haldið því fram að við ættum að sækja verulega miklu meiri þekkingu og ráðgjöf til skipstjórnarmanna á Íslandi, leita eftir ábendingum þeirra, reynslu þeirra og óska þess að okkar færustu skipstjórnarmenn og okkar færustu vísindamenn sem ég ætla ekki að skilgreina hverjir eru, beri saman bækur sínar. Þeir eru margir með mikla reynslu. En þeir eru sumir fastir í hjólfarinu sínu og það er slæmt. Þeir eru komnir í einhverja öryggishöfn embættis síns og það er ekki kreist út úr þeim sú þekking eða það frumkvæði sem þeir ættu að stunda, sú elja og metnaður sem þarf að vera að baki öllum rannsóknum ekki síst þeim sem snúa beinlínis að hversdagslífi Íslendinga.

Það er alla vega mjög dapurlegt og nöturlegt að horfa til þess að um þessar mundir eru margar helstu veiðiklær landsins með bundna báta sína við bryggju. Þeir dóla við pollana og eru svona að spá í það hvenær þeir fari næst á sjó vegna þess að þeir þurfa að forðast þorskinn sem veður um allan sjó. Þeim er ekki stætt að fara á sjó vegna mikillar þorskgengdar víðast hvar um landið. Þó mælistikan í líkani Hafrannsóknastofnunar segi eitt þá segja mennirnir með reynsluna annað. Það er ekki hægt að segja að vísindamenn og skipstjórnarmenn séu ósammála í öllu. Sem betur fer er það nú ekki svo slæmt. En það er hunsað að taka tillit til þeirra og hunsað að ganga til verka þannig að einhver sátt sé og eitthvert traust sé á aðferðinni.

Það var sérkennilegt nú í vetur þegar loðnuveiðar voru í biðstöðu, virðulegi forseti, að það voru sjómenn, skipstjórnarmenn sem færðu í rauninni fram rökin fyrir því að ástæða væri til þess að leyfa meiri loðnuveiði. Þetta voru nýmæli. En það voru meginástæðurnar að mínu mati fyrir því að þetta var leyft og aðeins opnað hliðið meira en ráðgert hafði verið og boðað hafði verið.

En það þýðir enga sýndarmennska í þessu, engan hégóma. Menntaðir vísindamenn eru ekkert betri, hvorki betri né verri en skipstjórnarmenn eða sjómenn. Það sitja allir við sama borð. Það er ekki nóg að geta bablað á bók. Þau verk sem höndin hefur lagt að verki, hugsunin í reynslunni, þekkingin hjá skipstjóranum sem veit nákvæmlega að þessa vikuna og þennan dag getur hann siglt á þessi mið, á þessa trintur, út á 400 faðma dýpi og fiskað þar ákveðna tegund af fiski, það er þekking. Sumir hafa kallað það fiskinef. Það er hluti dæmisins. En fyrst og fremst er það næmi þeirra fyrir þessari þekkingu sem þeir hafa lært sjálfir af því að umgangast slóðina.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að gengið verði í það fullum fetum að móta þau vinnubrögð sem oft hefur verið lofað í orði af stjórnmálamönnum en aldrei fylgt eftir, að nýta reynslu skipstjórnarmanna, til dæmis að kalla saman 30, 50 skipstjóra, reynda skipstjóra frá öllum landshlutum einu sinni eða tvisvar á ári til að bera saman bækur sínar og bera saman tillögur Hafró og vera með tillögur þannig að menn mundu finna farveg sem skapar traust.

Það er engin spurning að þegar traust er ekki til staðar þá virða menn ekki þær reglur sem eru settar. Þá koma upp margar efasemdir um brottkast og ýmsa þætti í veiðunum sem erfitt er að festa hendur á í gjörðum. Engu að síður er öruggt mál að víða er pottur brotinn í þeim efnum.

Það vita allir sem þekkja til sjávarbyggða landsins, þekkja til veiðimennskunnar, þekkja til þess þegar einhver veiðimaður á að gera eitthvað sem hann segir og trúir að sé tóm vitleysa að þá tekur brjóstvitið við og það gengur framar einhverjum boðuðum reglum sem menn kalla einu orði kjaftæði. Þetta er verkið sem þarf að vinna, hnýta saman þekkingu íslenskra vísindamanna, íslenskra veiðimanna, skipstjórnarmanna og það getur verið allt í lagi að kalla til einhverja þekkingu hjá erlendum vísindamönnum. En því er alveg eins farið og með jarðfræðinga að það eru nánast engir jarðfræðingar í heiminum sem þekkja jarðfræði Íslands nema íslenskir jarðfræðingar. Þeir þekkja auðvitað ákveðnar grunnlínur. En þeir þekkja ekki persónuleikann í jarðfræðikerfi Íslands, þekkja ekki tiktúrurnar og sveiflurnar og þá verður það spádómur. Við þurfum því ekkert að sækja þessa þekkingu annað. Við eigum hana innan lands og það skiptir öllu máli að virkja hana sem best.