135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:39]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þingmaður ekki skýra afstöðu Framsóknarflokksins gagnvart þessu frumvarpi nægilega vel. Það er alveg ljóst að það eru engar byltingar boðaðar í þessu frumvarpi. Það er verið að færa úr tvennum lögum nánast óbreytt ákvæði og síðan er verið að kveða á um hlutverk nýrrar stofnunar sem Framsóknarflokkurinn (Gripið fram í.)studdi ekki í vor en studdi hins vegar síðasta vor. Á hinn bóginn unnu ráðherrar Framsóknarflokksins að því að aðskilja kaupendur og seljendur í heilbrigðisþjónustu með nefndarstarfi og slíku um nokkuð langt skeið.

Mig langaði líka aðeins að fara inn á afstöðu Framsóknarflokksins varðandi einkarekstur. Það má oft skilja á Framsóknarflokknum að hann sé bara alfarið á móti einkarekstri eða ég átta mig ekki alveg á því hvað þingmenn hans eru að segja þegar þeir tala um einkavæðingu, þar er dálítill hugtakaruglingur enn þá í gangi.

Siv Friðleifsdóttir, þáv. hæstv. heilbrigðisráðherra, sagði í þessari umræðu:

„Hins vegar tel ég eðlilegt að skoða einkarekstur eins og tíðkast hefur um langa hríð og ég veit að allir flokkar meira og minna styðja einkarekstur.“ — Reyndar segir hún „líka þingmenn Vinstri grænna“. — „Við erum með einkarekstur núna, fjölmörg hjúkrunarheimili eru rekin í einkarekstri með ákveðnum daggjöldum. Við erum með einkarekstur uppi á SÁÁ, við gerum þjónustusamning og greiðum eftir honum. Ég var að skrifa undir samning upp á 2,5 milljarð um daginn við Náttúrulækningafélagið. Þar eru aðilar úti á markaði að veita þjónustu sem við greiðum fyrir með þjónustusamningum. Ég veit að þingmenn styðja að unnt sé að nýta einkareksturinn en þetta er alls ekki einkavæðing.“

Ég tek undir orð þáv. hæstv. heilbrigðisráðherra, ég er algjörlega sammála þessu. Við erum ekki að fara í einkavæðingu. Við erum hins vegar að auka fjölbreytni í rekstrarformum, þar á meðal að gera samning við einkaaðila til þess að veita þjónustu fyrir hönd ríkisins og til þess að nýta betur það fjármagn sem við höfum á milli handanna. Auðvitað kostar það ákveðið eftirlit, það er ákveðinn kostnaður við að koma (Forseti hringir.) upp ákveðinni þekkingu til þess að standa í þessu en við fáum út úr því betri og skilgreindari þjónustu fyrir sjúklinga.