135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007–2010.

519. mál
[14:06]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir svörin. Þá er það upplýst að þessi setning í nefndarálitinu er ekki tilmæli til ráðherra um að setja meira fé til rannsókna á jarðgöngum á þessu ári. Ég skildi setninguna þannig og þess vegna spurði ég hvar ráðherrann fengi peningana sem hann átti að nota til þess. Þetta er þá einhvers konar bænaskjal til hæstv. ráðherra um að biðja hann virðulegan að auka fé til rannsókna, væntanlega í næstu tillögu sinni. Það kemst vonandi til skila en ég vildi beina því til hv. samgöngunefndar og annarra þingnefnda að orða ekki samskipti sín við ráðherrana með þessum hætti.