135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:21]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ágæta ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur og nefndarálit hennar, framhaldsnefndarálit 2. minni hluta. Þar kemur m.a. fram, í 1. mgr., að Framsóknarflokkurinn vilji ekki bera ábyrgð á þeim grundvallarbreytingum sem gerðar eru á heilbrigðisþjónustunni með samþykki frumvarpsins og þar er líka sagt að þeir muni sitja hjá við lokaafgreiðsluna.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að verið er að gera ákveðnar grundvallarbreytingar varðandi fjármögnunina. Annars má segja að markmiðið með frumvarpinu, fyrir utan þær grundvallarbreytingar, sem er að kostnaðargreina og styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda, sé að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang, stuðla að rekstri og þjóðhagslegri hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Þetta er meginhlutverk frumvarpsins eða megintilgangurinn.

Í því sambandi er auðvelt að fara yfir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 1999 þar sem einmitt er verið að fara út í samkomulag sem var í þá veru, eins og segir, með leyfi forseta:

„Skoðaðir verði möguleikar á breyttu rekstrarformi einstakra þjónustuþátta eða stofnana í heilbrigðisþjónustu til að tryggja landsmönnum góða þjónustu en auka jafnframt ábyrgð stjórnenda í rekstrinum.“

Nú var að vissu leyti farið eftir þessari stefnuyfirlýsingu á þeim tíma sem var þá að sumu leyti endurtekning frá 1995 og m.a. farið í samninga við Art Medica, Heilsugæsluna í Salahverfi og Sóltún. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvert hans mat sé á því hvort farsæl skref hafi verið stigin þegar samningar voru gerðir við þessa aðila um heilbrigðisþjónustu og hvort hv. þingmaður vill sjá framhald á slíkum samningum.