135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[19:14]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla rétt að vona að hv. þm. Pétur Blöndal tali ekki af jafnmikilli lítilsvirðingu um önnur lög sem hér gilda í landinu og þau lög sem hann vitnaði hér til um aðild að stéttarfélögum. Þetta gildir um allan vinnumarkaðinn þó að hann sé að láta BSRB — (PHB: Það er ekki rétt.)Er það ekki rétt? Þá biðst ég forláts, (Gripið fram í.) það er þá minn misskilningur og ég biðst forláts á því.

Það sem ég vildi sagt hafa varðandi einkareksturinn er að menn skulu ekki halda að við vinstri græn séum á móti öllum einkarekstri. Ég hef áður rakið það hér í þessum stól að við spyrjum þriggja spurninga: Er það betra og ódýrara fyrir þann sem á að njóta þjónustunnar, eins og sjúklinginn? Er það betra eða ódýrara fyrir þann sem á að borga þjónustuna, þ.e. ríkið? Er það betra starfsumhverfi og betri kjör fyrir þann sem á að sinna þjónustunni, sem eru starfsmennirnir? (Forseti hringir.) Ef svarið við einni af þessum spurningum er nei segjum við líka nei, (Gripið fram í.) og það á við um öll þau dæmi sem rakin eru í nefndaráliti okkar þar sem þessi þjónusta hefur reynst miklum mun dýrari fyrir ríkið en ella.