136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:16]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Á fundi utanríkismálanefndar í morgun var rætt um viljayfirlýsingu um áform íslenskra stjórnvalda vegna fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í viljayfirlýsingunni er sérstaklega tekið á endurskipulagningu bankakerfisins. Fram kom á fundinum í morgun að bankamálin eru komin í ágætan farveg í takt við það sem kemur fram í yfirlýsingunni. Mjög fljótlega í kjölfar bankahrunsins var sett á laggirnar samræmingarnefnd og nú hefur verið fenginn til að leiða þá nefnd Svíi nokkur sem hefur mikla reynslu í farteskinu þar sem hann leiddi m.a. aðgerðir í kjölfar bankakreppunnar í Svíþjóð upp úr 1990. Þannig fáum við utanaðkomandi sérfræðing til að leiða starf teymis sem ætlað er að samræma stefnu og aðgerðir stjórnvalda í fjármálauppbyggingarfasanum sem fram undan er. Teymið starfar á vegum forsætisráðherra og ber m.a. ábyrgð á að þróa, innleiða og skýra frá heildstæðri aðgerðaráætlun um endurskipulagningu bankanna.

Í kjölfar neyðarlaganna tóku nýju bankarnir yfir innlenda bankastarfsemi sem kunnugt er sem fjármögnuð er að mestu af innlendum innstæðueigendum. Í gömlu bönkunum eru viðskipti í erlendum útibúum og dótturfélögum sem aðallega voru fjármögnuð með útgáfu skuldabréfa á erlendum innstæðum. Þegar hafa verið birtir stofnefnahagsreikningar nýrra banka en í gangi er önnur umferð mats sem framkvæmt er af virtu erlendu endurskoðunarfélagi, Oliver Wyman, og þar eru gagnsæi og trúverðugleiki lykilatriði. Við munum sjá það mat fljótlega.

Þá er verið að endurskoða alla reglugerðarumgjörð fjármálastarfseminnar og framkvæmd bankaeftirlitsins. Til að leiða þá vinnu hefur fengist reyndur finnskur eftirlitsmaður (Forseti hringir.) sem gegndi m.a. starfi forstöðumanns fjármálaeftirlitsins í Finnlandi á árum áður.