136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál.

[10:36]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska hv. þm. Þuríði Backman til hamingju með það að vera orðin formaður í heilbrigðisnefnd. Ég vil aðeins blanda mér í þessa umræðu vegna þess að hér erum við með dæmigert mál sem er erfitt að verja en getur engu að síður verið nauðsynlegt að grípa til.

Við erum að tala um gríðarlega erfiðleika í rekstri ríkissjóðs og krafan á heilbrigðiskerfið er um milljarða í sparnað. Sjúkrahúsinu á Akureyri er gert eins og hér hefur komið fram að spara 250–300 millj. og með þessari aðgerð sparast ekki nema lítill hluti af því. Það er talað um 17–18 millj. En við skulum hafa í huga að það er verið að gera skipulagsbreytingar með þessari aðgerð. Það er verið að loka starfsemi sem hefur farið fram í gömlu einbýlishúsi sem uppfyllir alls ekki þau skilyrði sem gerð eru til starfsemi sem þessarar. Það er verið að loka því og það á selja það hús sem er við Skólastíg. Í haust verður þessi starfsemi sem nú er verið að leggja niður starfrækt í betra húsnæði, á Seli sem kallað er. Vissulega er erfitt tímabil núna fram undan í þessa örfáu mánuði en við verðum að hafa í huga að í haust verður opnað í nýju húsnæði þar sem uppfyllt eru skilyrði til starfsemi sem þessarar. Að mínu mati er það ekki þannig að þessir sjúklingar fari allir inn á bráðadeild vegna þess að starfsemin skiptist í bráðadeild, göngudeild og dagdeild. Það er bara verið að loka dagdeild geðdeildar FSA. Vissulega er það nógu slæmt en það er þó a.m.k. göngudeild til staðar og það skiptir máli.

Þetta vildi ég að kæmi fram (Forseti hringir.) án þess að ég sé að taka á mig meiri ábyrgð en þessi orð gefa tilefni til.