136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:23]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra um leið og ég óska honum til hamingju með embættið. Ég þakka honum fyrir skýrsluna en vil þó láta það koma fram, hæstv. forseti, að mér finnst að hæstv. ráðherra hefði kannski getað nýtt tíma sinn betur til að segja okkur hvað hann ætlast fyrir og hvernig hann sér þetta fyrir sér til framtíðar. En hann fær tækifæri síðar í þessari umræðu til að fara frekar ofan í það.

Staðreyndin er sú að við eigum í miklum erfiðleikum, Íslendingar, það vita allir. Við erum svartsýn og smeyk við ástandið og hvernig okkur tekst að vinna okkur út úr því. En við megum ekki gleyma því í allri þeirri neikvæðu umræðu sem fram fer að við erum búin að byggja upp glæsilegt heilbrigðiskerfi sem þjónar þegnunum býsna vel og kannski má segja mjög vel (Gripið fram í.) miðað við þau orð sem höfð voru uppi áðan, t.d. af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, að staðan sé öfundsverð. Það eru stór orð og af því að hann situr í salnum vil ég aðeins minna hann á þann tíma þegar hann var í Framsóknarflokknum og við fórum með heilbrigðismálin, þá fannst mér kannski ekki alltaf að hann væri alveg sannfærður um að mál væru í réttum farvegi. Engu að síður hefur hann þessi orð uppi nú og er ég ánægð að heyra það.

Það sem ég er að fara, hæstv. forseti, er það að við erum með gott kerfi og fullkomið þegar það er borið saman við kerfi annarra þjóða en engu að síður komumst við ekki hjá því núna að taka þannig á málum að það verði sparað í kerfinu. Það er aldrei auðvelt að spara í heilbrigðismálum og það verður heldur ekki núna.

Vegna þess hvernig pólitíkin liggur og vegna þess að það má segja að fjórir stærstu flokkarnir á Alþingi hafi allir komið að heilbrigðismálum á síðustu tæpum tveimur árum eru kannski meiri líkur á því núna en oft áður að náðst geti nokkuð góð samstaða um það hvernig fara eigi í þessi mál. Það er enginn alveg saklaus af ástandinu eins og það er og það eru allir að einhverju leyti ábyrgir fyrir því sem er fram undan. Ég bið um meiri samvinnu við að leysa þau mál sem þarf að taka á og vil meina og trúi því að hæstv. heilbrigðisráðherra vilji slíkt samstarf og óski eftir því.

Af því að það kom fram áðan hjá hv. þm. Ellerti Schram að þetta mál snúist ekki um flokkspólitík, heilbrigðismálin, þá gera þau það vissulega að nokkru leyti. Það er t.d. pólitískt mál hversu langt við viljum ganga í sambandi við einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, það er mál sem við erum búin að takast mjög mikið á um á hv. Alþingi. Ég heyrði að hv. þm. Ásta Möller sagði að rekstrarform skipti ekki máli. Ég upplifði umræðu um sjúkratryggingar í þessum sal þannig að rekstrarformið skipti heilmiklu máli og þar greinir okkur svolítið á, þ.e. hversu langt eigi að ganga í sambandi við einkareksturinn.

Hæstv. forseti. Það sem ég vil að hæstv. ráðherra komi aðeins meira inn á í síðari ræðu sinni er um Lýðheilsustöð, ég veit að það eru umræður um ákveðna sameiningu þar. Í hvaða farvegi er það? Ég vil fá að heyra hver áformin eru um Landspítalann, það er hægt að spara 10–15% á ári með því að fara í þá framkvæmd. Ég veit að það er ekki einfalt miðað við aðstæðurnar. Ég vil spyrja um tilvísanakerfi. Hv. formaður heilbrigðisnefndar nefndi það fyrirkomulag. (Forseti hringir.) Er eitthvað slíkt á döfinni? Ég er jákvæð gagnvart því. Svo vil ég spyrja um greiðsluþátttökukerfið sem ég tel að við hefðum átt að halda áfram með þó að skipt hafi verið um ríkisstjórn.