136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[15:04]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að fólk gæti notað þessa peninga til að borga skuldir sínar. Já, það getur gert það en er ekki skuldbundið til þess. Það segir meira að segja í skýringum við frumvarpið, með leyfi forseta:

„Miðað er við að andvirðinu verði ráðstafað annars vegar til skuldalækkunar og hins vegar til aukinnar eftirspurnar í hagkerfinu.“

Það er verið að opna séreignarlífeyrissparnaðinn til að reyna að auka einkaneyslu. Það segir beinlínis í frumvarpinu sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Það þýðir ekkert að afneita því sem hér stendur. Annað af tvennu sem talið er upp sem tilgangur frumvarpsins er að auka einkaneyslu, ekki til að borga skuldir heldur til að eyða peningum. Það er það sem er tilgangur, annar af tveimur.

Annað mál er, það er nefnilega alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, að þetta er til að fleyta fólki fram yfir — hvað? Fram yfir kosningar. Fá fólk til að halda að þetta sé nóg til að fleyta því fram yfir kosningar og vonandi getur það fyrir marga orðið sú hjálp að það geri það. En það leysir ekki vandann og það er það sem ég er að gagnrýna. Vandi skuldugra fjölskyldna, sem skulda 20, 30, 40 eða 50 millj. kr., verður ekki leystur með þessum hókuspókus-fræðum. Ríkisstjórnin verður að svara kjósendum því núna: Hver eru úrræðin fyrir fólk sem er í vandræðum? Hvað er það sem ríkisstjórnin ætlar að leggja til til að fólk geti staðið undir skuldbindingum sínum? Þau svör vantar, virðulegi forseti, og það er það sem ég held að menn þurfi að átta sig á.