136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

Breiðavíkurmálið.

[10:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýr svör og fagna því að það sé áframhald á þessari vinnu og eftirfylgni og við eigum von á frekari skýrslugerð um hvernig staðið hefur verið að aðbúnaði barna og ungmenna í landinu. Ég veit að mikil ábyrgð hvílir á hæstv. forsætisráðherra og hún hefur skamman tíma til að sinna fjölda mikilvægra mála sem varða þjóðarhagsmuni mikla og stóra. Ég vil engu að síður hvetja hæstv. forsætisráðherra, og veit að hún þarf ekki hvatningar við, til að leitast við að reyna að ljúka þessum málum, eins og hún segir, í bærilegri sátt við þá sem hlut eiga að máli. Ég held að fólk úr öllum flokkum sé sammála um að við þurfum að læra af þessari reynslu og kannski ekki síst að huga að því hvort við stöndum okkur eins vel í þessum efnum og við frekast getum. Við þurfum að hugsa til ýmissa afskiptra hópa barna og ungmenna í samfélaginu í því sambandi.